Dæmi um tilvik sem rétt er að tilkynna til barnaverndarnefnda

Hér að neðan eru dæmi um tilvik sem yfirvöld telja rétt að tilkynnt sé um til barnaverndarnefnda:

Hafa ber í huga að oft á tíðum er það ekki eitthvað eitt tilvik eða atriði sem vekur áhyggjur starfsmanns. Um getur verið að ræða fleiri þætti eða ástand og tilfinningu fyrir líðan barns sem vekur áhyggjur starfsmanns. Barnaverndarmál eru oft flokkuð á eftirfarandi hátt: Vanræksla, andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu með eigin hegðun. Mörkin milli hinna ólíku flokka eru stundum óljós og ótal atriði er unnt að setja undir hvern flokk. Listann hér að neðan má hafa til hliðsjónar til að hjálpa starfsmanni til að glöggva sig á líðan og ástandi barnsins. Mikilvægt er að undirstrika að listinn er ekki tæmandi.

Vanræksla

Vanræksla getur verið bæði andleg og líkamleg og felur í sér að barn fái ekki þá umönnun og aðbúnað sem því er nauðsynlegt og sem hefur leitt til skaða á þroska þess eða er líklegt til þess. Vanræksla getur hafist strax á fósturstigi. Vanræksla getur falist í því að barn fái ekki líkamlegum þáttum fullnægt vegna sinnuleysis foreldra, ekki sé hugað að því að barn fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu o.fl. Vanrækslan getur varðað umsjón og eftirlit barnsins eins og að það sé skilið eftir eitt og eftirlitslaust án þess að hafa til þess aldur eða þroska eða að foreldrar eru ófærir um að sinni þörfum barnsins vegna eigin áfengis- eða vímuefnaneyslu. Vanræksla getur varðað skólagöngu barns, t.d. að barn komi ítrekað í skólann án nauðsynlegra áhalda eða fatnaðar og ábendingar til foreldra um það bera engan árangur.

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi er oft erfitt að greina en það getur engu að síður haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir barnið. Það felur í sér að foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar sýna barninu viðvarandi neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinningar sem eyðileggur eða hindrar þróun jákvæðrar ímyndar barnsins. Andlegt ofbeldi getur falist í viðhorfi eða hegðun sem segir að barnið sé einskis vert, engum þyki vænt um það eða enginn vilji sjá það. Andlegt ofbeldi getur falist í algjöru aðgerðarleysi eins og að sýna barninu engar tilfinningar.

Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er ofbeldi sem beint er að börnum og hefur leitt til að barnið skaðist eða er líklegt til þess. Barnið getur borið merki ofbeldisins eins og t.d. marbletti, brunasár eða beinbrot sem barnið og/eða foreldrar reyna að fela eða eiga erfitt með að útskýra eða ef útskýring verður ótrúverðug. Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barnið er slegið, hrist, því hent til, brennt eða bundið. Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barni er viljandi gefinn hættuleg lyf eða annað sem skaðað getur barnið.

Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni felur í sér: - kynferðislega athöfn gagnvart barni eða með barni innan 15 ára aldurs með eða án vilja barnsins - kynferðislega athöfn gagnvart eða með barni 15 ára eða eldra án vilja barnsins. Kynferðislegt ofbeldi getur falist í því að barn sé látið horfa á klámefni eða kynfæri eða teknar myndir af barni í þeim tilgangi að örva aðra kynferðislega. Kynferðislegt ofbeldi getur falist í því að þuklað sé innan klæða á kynfærum barns eða barn látið þukla á kynfærum einhvers. Kynferðislegt ofbeldi getur falist í samförum við barn.

Áhættuhegðun barns

Áhættuhegðun felur í sér að barn hegðar sér á einhvern hátt sem hefur skaðað eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska Áhættuhegðun barns getur verið neysla á áfengi eða vímuefnum eða barnið er farið að stunda afbrot Áhættuhegðun barns getur verið þegar barn skaðar sjálft sig með því að veita sjálfu sér áverka. Áhættuhegðun barns getur verið þegar barn beitir aðra líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Nánari upplýsingar um vinnslu barnaverndarmála má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu,www.bvs.is

Síðast uppfært: 11.09.2019