Listaverk í eigu skólans

Blómgun eftir Sigurjón Ólafsson

Sigurjón vann þetta verk árið 1978. Frummyndin er úr tré, 121x44,5x47 sm. Vorið 1987 sótti Menntaskólinn við Sund um framlag úr Listskreytingasjóði ríkisins til að láta stækka myndina, endurgera hana í varanlegt efni og koma henni fyrir á lóð skólans. Umsóknin hlaut jákvæðar undirtektir og var þá gengið til samninga við Birgittu Spur, forstöðumann Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og ekkju listamannsins, um rétt skólans til að mega stækka og endurgera verkið.

Framkvæmdinni var þannig háttað, að fyrst gerði ErlingurJónsson myndhöggvari gipsafsteypu af verkinu í tvöfaldri stærð. Erlingur er gamall vinur og samstarfsmaður Sigurjóns og starfaði á þessum tíma sem kennari við myndlistarskóla í Osló. Fyrirtækið Kristiania Kunst- og Metalsløberi A/S íOsló sá síðan um að steypa verkið í brons. Því var lokið vorið 1988 og kom myndin til landsins þá um sumarið. Erlingur fylgdist með framkvæmd verksins ytra, og hann var einnig með í ráðum varðandi staðarval og gerð stöpulsins undir myndina. Stöpullinn var steyptur upp um haustið og föstudaginn 4. nóvember 1988 afhjúpaði Birgitta Spur verkið við hátíðlega athöfn á lóð skólans að viðstöddum nemendum og starfsmönnum hans.

Listaverk eftir Eggert Pétursson í eigu skólans

Eggert Pétursson listmálari var nemandi við Menntaskólann við Tjörnina. Á menntaskólaárunum teiknaði Eggert m.a. myndir í TIRNU sem er bók útskriftarnemenda við MS og einnig gerði hann þá myndir í bókina Flóra Íslands sem Ágúst H. Bjarnason fyrrum kennari við skólann samdi. Skólinn eignaðist á þessum tíma all nokkrar blómateikningar eftir Eggert sem varðveittar eru í skólanum.

Þá hefur skólanum áskotnast að gjöf frá fyrrum nemendum þrjár olíumyndir eftir Eggert sem einnig eru af íslenskri flóru en hún hefur verið helsta viðfangsefni listamannsins í gegnum árin.

Listaverk eftir Guðrúnu Benediktu Elíasdóttur

Guðrún Benedikta Elíasdóttir útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1987 og starfaði í 19 ár sem myndlistakennari í Kópavogi en kennir núna myndlist í Menntaskólanum við Sund.

Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum síðustu árin í Lúxembourg, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Noregi, Austurríki, Bandaríkjunum og Íslandi. Guðrún hefur einnig dvalið á gestavinnustofum í Vallauris í Suður Frakklandi og í Listagilinu á Akureyri. Síðustu árin hefur hún hallast meira yfir í að mála með litablöndu sem hún býr til sjálf "patine au vin" blönduna hefur hún svo þróað gegnum árin og bætt við ösku úr Eyjafjallajökli, steinmulning úr Borgarfirðinum og víðar. Innblásturinn kemur að mestu frá Íslandi og virtust áhrifin aukast eftir því búsetan varð lengri erlendis. Megin viðfangsefnið er náttúran sjálf og náttúruöflin í öllum sínum myndum unnið með náttúrulegum efnum. 

Heimild: Guðrún Benedikta Elíasdóttir | Artótek (artotek.is) 

Skólinn eignaðist verkið Beðið eftir Bárðarbungu eftir Guðrúnu Benediktu í janúar 2019 og var verkið keypt í tilefni 50 ára afmæli skólans.

Listaverk eftir Ólöfu Björgu Björnsdóttur

Ólöf Björg Björnsdóttir er myndlistarkennari við Menntaskólann við Sund. Ólöf Björg útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 með málun sem aðalgrein og vorið 2007 lauk hún kennaranámi frá sama skóla. Einnig lærði hún myndlist við háskólann í Granada á Spáni og dvaldi á textílverkstæði Ami Ann og lærði hjá meistara An Ho Bum í Seoul í Kóreu 1994-1995.
Ólöf Björg hefur verið virk í myndlistinni frá útskrift, haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga og uppákomum ýmiskonar.

Skólinn eignaðist listaverkið Vernd eftir Ólöfu 2019 en það var keypt í tilefni 50 ára afmælis skólans.