Stefna MS um viðbrögð og aðgerðir við áföllum

Áfall er mótlæti eða erfið reynsla sem einstaklingur verður fyrir.

Áfallateymi skólans fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og/eða starfsmenn skólans.

Eftirtaldir sitja í áfallateymi:

 • Rektor
 • Konrektor
 • Kennslustjóri
 • Forstöðumaður námsráðgjafar
 • Námsráðgjafi
 • Skrifstofustjóri
 • Fulltrúar kennara

Áfallateymi getur leitað til eftirtalinna aðila eftir þörfum:

 • Sóknarprests í Langholtskirkju
 • Yfirlæknis á heilsugæslunni í Glæsibæ
 • Verkefnisstjóra Rauða krossins

Rektor er formaður teymisins og kallar það saman þegar þörf krefur. Hann er sá aðili innan skólans sem fyrst er haft samband við vegna válegra tíðinda. Hann getur tekið ákvarðanir strax og sér að jafnaði um samskipti við fjölmiðla ef til kemur þannig að upplýsingastreymi sé samræmt.

Hlutverk námsráðgjafa er fyrst og fremst að skipuleggja sálræna skyndihjálp við þann eða þá sem fyrir áfalli verða. Mikilvægt er að þessi skipulagning sé þannig að sá sem fyrir áfalli verður fái strax þá aðstoð og aðhlynningu sem nauðsynleg er.

Menntaskólinn við Sund leitar til prests þurfi að sækja stuðning vegna áfallahjálpar. Eftir atvikum er einnig leitað heilsugæslustöðvarinnar í Glæsibæ og Rauðakross Íslands. Brýnt er að koma skilaboðum strax til allra starfsmanna og er rektor ábyrgur fyrir því.

Skrifstofustjóri sér um að miðla og taka við upplýsingum. Ef mál tengist nemanda MS og beðið um að ná í viðkomandi úr tíma fylgir skrifstofustjóri sérstökum leiðbeiningum á gátlista skólans til að koma í veg fyrir að það sé t.d. tilkynnt um alvarlegt áfall eða dauðsfall beint í gegnum símann. Með vitneskju sinni um eitthvað alvarlegt á skrifstofustjóri að hafa samband við einhvern úr yfirstjórn skólans (rektor, konrektor).

Viðkomandi er síðan sóttur og honum tilkynnt um atburðinn og hlúð að honum eins og hægt er. Mismunandi er hvernig fólk tekur áföllum og skólinn þarf að vera undir það búinn að bjóða fram þá aðstoð sem nauðsynleg er til að viðkomandi nemandi eða starfsmaður fari ekki út úr skólanum í þannig ástandi að hann geti valdið sjálfum sér og öðrum skaða. Mikilvægt er að starfsfólk tjái sig ekki eða bregðist við válegum atburðum án samráðs við áfallateymi.

Ef nemandi slasast alvarlega eða lætur lífið hefur námsráðgjafi samband við kennara viðkomandi og leitar upplýsinga um hver vinahópurinn er svo hægt sé að ná sem fyrst til þeirra. Nauðsynlegt er að nánustu vinir fái aðstoð og aðstandendur þeirra fái vitneskju um atburðinn þannig að nemendur geti fengið stuðning þegar heim er komið. Ferlið er svipað ef starfsmaður á í hlut. Þá er leitað til nánustu aðstandenda og reynt að tryggja að viðkomandi fái þá aðstoð sem hann þarf.

Viðbrögð MS við áföllum

Fyrstu viðbrögð

1. Sá sem fyrstur fær upplýsingar um dauðsfall eða alvarlegt slys kemur þeim til yfirstjórnar skólans. Upplýsingar fara ekki lengra fyrr en rektor hefur gefið fyrirmæli um það.

2. Yfirstjórn skólans aflar staðfestra upplýsinga hjá lögreglu/forráðamönnum eða öðrum sem málið varðar.

3. Rektor kallar áfallateymi skólans saman á fund þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir ákveðnar. Fyrsti fundur ætti að vera stuttur, þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar.

4. Rektor og námsráðgjafi kalla til nemanda (ef um slíkt mál er að ræða) og flytja honum fregnir af andláti/slysi. Hlúð er að nemandanum eins og unnt er og leitað aðstoðar eftir því sem hæfir hverju sinni.

5. Rektor upplýsir kennara og aðra starfsmenn skólans í tölvupósti um hvað gerst hefur og hvernig skólinn hyggst taka á málum. Rektor sér um að upplýsingar berist til alls starfsfólks skólans og annarra sem starfa í skólanum. Mikilvægt er að umsjónarkennari/ar þess/þeirra nemenda er málið varðar fái upplýsingar sem fyrst. Hringja þarf í þá sem ekki eru á staðnum.

6. Athuga þarf hvort einhverjir nemendur/starfsmenn tengjast atburðinum sérstaklega og þurfi að fá upplýsingar um atburðinn í einrúmi áður en nemendahópnum eða starfsfólki er tilkynnt um það sem gerst hefur. Ef málið snertir nemanda eru það umsjónarkennarar eða aðrir kennarar sem segja frá atburðinum – allir á sama tíma.

Ef málið snertir nemendur er æskilegt er að þeirr fái að ræða atburðinn og líðan sína og því er að jafnaði heppilegra að greina frá atburðinum í kennslustofu þar sem þeir eru allir til staðar. Ítreka þarf við nemendur að senda ekki SMS né birta upplýsingar um atburðinn á fésbókinni.

Ef um andlát er að ræða

 1. Húsvörður flaggar í hálfa stöng að tilkynningu lokinni.
 2. Skrifstofustjóri sér um að senda blóm í nafni skólans til fjölskyldu viðkomandi.
 3. Ef um nemanda er að ræða hjálpar umsjónarkennari hópnum að senda kveðju til fjölskyldu hans.
 4. Samskipti við fjölskyldu þess látna eru í höndum skólastjórnenda /námsráðgjafa sem njóta aðstoðar umsjónarkennara ef um nemanda er að ræða.
 5. Í lok skóladagsins kallar skólameistari áfallateymi skólans saman. Farið er yfir nöfn þeirra sem tengjast atburðinum, s.s. ættingja og vina. Aðgerðir næstu daga ræddar.
 6. Minningarathöfn í skólanum.

Viðbrögð næstu daga

 1. Hlúð er að þeim sem orðið hafa fyrir áfalli (nemendum og starfsfólki) og þeim gefinn kostur á að vinna með tilfinningar sínar. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl. Nauðsynlegt getur reynst að fá utanaðkomandi aðstoð til að álag verði ekki of mikið á starfsfólki skólans, t.d. sálfræðing eða prest.
 2. Hafi nemandi eða starfsmaður látist er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn, til dæmis í umsjá prests.
 3. Húsvörður flaggar á útfarardegi.
 4. Við andlát er æskilegt að forráðamenn fylgi ólögráða einstaklingum í útför. Upplýsingar þar um verða sendar í tölvupósti á forráðamenn.
 5. Haldið er áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans.

Gefa skal gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsmanna skólans. Boðið er upp á hópvinnu eða einstaklingsviðtöl ef þörf er á.

Síðast uppfært: 24.09.2018