FRAN2ES05 - Málnotkun og menningarlæsi

Áfram er unnið að aukinni færni nemenda í lesskilningi, tali, hlustun og ritun og orðaforði aukinn jafnt og þétt. Leitast er við að nemendur fái aukin tækifæri til að tjá sig. Farið er dýpra í málfræði eftir þörfum. Á seinni hluta annars þreps er námsefnið að mestu þematengt, þar sem fengist er við menningu, listir og önnur svið þjóðlífsins. Lesnir eru textar af ýmsu tagi, s.s. bókmenntatextar og blaðagreinar. Farið er dýpra í texta en áður. Þá eru önnur menningar- og listform tekin fyrir. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni og miðla þeim jafnt munnlega sem skriflega. Franskar kvikmyndir verða sýndar. Í lok áfangans eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig B1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til að mæta hæfniviðmiðum þrepsins, s.s. þverfaglegum orðaforða og flóknari orðasamböndum
 • notkun tungumálsins í færniþáttunum fjórum við mismunandi aðstæður
 • grundvallaruppbyggingu þjóðfélaga þar sem tungumálið er notað sem móðurmál eða fyrsta mál
 • ólíkum viðhorfum og gildum og hvernig þau móta menninguna í þeim löndum þar sem tungumálið er notað og geta tengt þau eigin reynslu, samfélagi og menningu


Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • skilja mál sem talað er við mismunandi aðstæður sem og skilja algengustu orðasambönd sem eru einkennandi fyrir talað mál
 • hafa innsýn í mismunandi hreim og mállýskur tungumálsins
 • lesa margs konar gerðir texta og beita mismunandi lestraraðferðum
 • skrifa ýmis konar texta, jafnt formlega sem óformlega, og fylgja helstu rithefðum og reglum um málbeitingu
 • tjá sig skýrt um málefni sem hann hefur kynnt sér og undirbúið
 • taka virkan þátt í samskiptum á viðeigandi hátt og beita málfari við hæfi


Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • skilja meginatriði daglegs máls, s.s. samræður og fjölmiðlaefni, hvort sem hann þekkir umræðuefnið eða ekki
 • skilja megininntak erinda og rökræðna um kunnugleg efni
 • tileinka sér efni ritaðra texta af ýmsu tagi og hagnýta á mismunandi hátt
 • lesa texta af mismunandi formgerðum þar sem ákveðin viðhorf eða skoðanir eru kynnt. Átta sig á afstöðu höfundar og bregðast við eða tjá skoðanir sínar munnlega eða skriflega
 • lesa á milli línanna og átta sig á dýpri merkingu í texta
 • ræða við aðra af nokkru öryggi um efni sem hann þekkir vel til
 • taka þátt í skoðanaskiptum, eiga frumkvæði að samræðum, bregðast við óvæntum spurningum og athugasemdum, leysa mál sem upp koma í samskiptum og haga orðum sínum í samræmi við aðstæður
 • tjá sig á skýran og áheyrilegan hátt við margs konar aðstæður
 • skrifa flóknari og fjölbreyttari texta en áður um ýmis efni og fylgja viðeigandi ritunarhefðum

Nánari upplýsingar á námskrá.is