Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans við Sund

Samþykkt í stjórn skólans 1.2.2021 og yfirfarin og lagfærð árlega, síðast 18.06.2024

Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans við Sund nær til allrar starfsemi skólans. Með umhverfis- og loftslagsstefnu sinni skuldbindur skólinn sig til þess að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif sem hljótast af starfsemi skólans og að stuðla að fræðslu á sviði umhverfismála til komandi kynslóða. Markmið umhverfisstefnu skólans er að fella alla starfsemi hans að markmiðum í umhverfismálum með sjálfbærni að leiðarljósi.

Það er stefna skólans að vera leiðandi þegar kemur að vistvænum lífsstíl og fræðslu um þau mál. Það er stefna skólans að stuðla að vistvænum lífsmáta nemenda sem og starfsfólks. Þetta er gert með öflugri fræðslu fyrir alla, með því að sýna gott fordæmi þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl, orkunotkun, úrgangslosun, endurvinnslu, endurnýtingu og aðgerðum til að draga úr, og eyða, kolefnisspori okkar.

Það er stefna skólans að umhverfismálin séu einn af hornsteinum námskrár skólans og umhverfisfræði sé skyldugrein við skólann hjá öllum nemendum hans og mikilvægi þess að ganga vel um og virða umhverfið sé dregið fram í sem flestum áföngum skólans. Það er stefna skólans að samtvinna fræðslu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum innan og utan skólans þannig að þau mál verði sjálfsagður hlutur við alla ákvarðanatöku.

Menntaskólinn við Sund reynir þannig að vera umhverfisvænn skóli í víðri merkingu. Allt rusl er flokkað og leitast er við að hækka hlutfall þess sem fer í endurvinnslu auk þess sem lögð er áhersla á að draga úr efnis- og orkunotkun. Skólinn færir grænt bókhald, fylgir stefnu um græn skref í ríkisrekstri, tekur þátt í verkefninu "Á grænni grein" og hefur hlotið "Grænfánann" þrjú ár i röð.

Þá eru allar skipulagðar námsferðir nemenda og ferðir starfsfólks vegna endur- og símenntunar á fundi og ráðstefnur hérlendis sem erlendis kolefnisjafnaðar og við skipulag þeirra og annarrar starfsemi skólans er miðað við að draga eins og hægt er úr kolefnisspori vegna þessara ferða.

Umhverfis- og loftslagsstefna skólans er sett fram til lengri tíma en er endurskoðuð árlega. Henni er fylgt eftir með aðgerðaáætlun til þriggja ára, sem einnig er endurskoðuð árlega. Rektor skólans er ábyrgur fyrir stefnu skólans og að henni sé framfylgt. Allir starfsmenn skólans skulu gæta þess í störfum sínum að framfylgja stefnu skólans í umhverfis- og loftslagsmálum.

Framtíðarsýn Menntaskólans við Sund í umhverfis- og loftslagsmálum

Það er stefna skólans að vera leiðandi þegar kemur að umhverfismálum, vistvænum lífsstíl og fræðslu um þau mál. Aðgerðir skólans í þeim málum skulu ávallt taka mið af þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni og stefnu yfirvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Menntaskólinn við Sund stefnir á að vera nemendum og öðrum til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsategunda frá starfsemi skólans og minnka þannig þau áhrif sem losunin hefur í för með sér. Skólinn mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða erlendis og innanlands með áherslu á fjarfundi, breytt vinnulag og með vali á áfangastöðum. Skólinn mun draga úr losun vegna ferða starfsmanna og nemenda til og frá vinnu með auknum stuðningi við vistvænar samgöngur og með því að nota eingöngu leigubíla sem ekki nota jarðefnaeldsneyti. Skólinn mun draga úr losun úrgangs með markvissri flokkun, minni sóun og betri endurnýtingu. Þá mun skólinn draga úr orkunotkun með markvissum orkusparnaðaraðgerðum og stýringu. Þá mun skólinn, í samvinnu við rekstraraðila mötuneytis grípa til margs konar aðgerða til þess að draga úr matarsóun og stuðla að hærra hlutfalli matar sem skilur eftir sig lítið kolefnisspor. Skólinn kolefnisjafnar ferðir á vegum skólans og stefnir að því að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.Skólinn vill með þessu stuðla að því að markmiðum Parísarsamningsins sé náð.

Menntaskólinn við Sund leggur áherslu á að umhverfismennt sé hluti af kjarnastarfsemi skólans og með öflugri fræðslu á því sviði verði mikilvægi loftslags – og umhverfismála miðlað áfram til komandi kynslóða. Til þess þarf að verða almenn hugarfarsbreyting þannig að sjálfbærni og grænn lífstíll verði hluti af lífstíl þorra fólks. Menntaskólinn við Sund vill leggja sitt af mörkum svo það geti orðið.

Yfirmarkmið

Menntaskólinn við Sund ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á ársverk um að lágmarki 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2018 með því að umhverfis- og loftslagsmál verði samtvinnuð allri starfsemi skólans. Skólinn stefnir einnig að því að fræða og miðla til komandi kynslóða mikilvægi loftslags- og umhverfisverndar og sjálfbærni.

Gildissvið

Umhverfis- og loftslagsstefna skólans er sett fram til lengri tíma en er endurskoðuð árlega. Henni er fylgt eftir með aðgerðaáætlun til þriggja ára sem er endurskoðuð árlega. Rektor skólans er ábyrgur stefnu skólans og að henni sé framfylgt.

Umfang

Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans við Sund nær til samgangna á vegum skólans, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu og umhverfisáhrifa skólans í víðu samengi. Stefnan nær til allrar starfsemi skólans, bygginga hans, viðhalds þeirra og endurnýjunar. Stefnan nær til áherslna í námskrá MS og námsframboðs í samræmi við þá stefnu að fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál séu hluti af kjarnastarfsemi skólans. Stefnan tekur m.a. til eftirfarandi umhverfisþátta sem unnt er að fylgjast með og mæla hverju sinni. Tölur um hvernig gengur að draga úr kolefnisspori skólans af völdum flestra þessara þátta má lesa úr Grænu bókhaldi skólans sem hefur verið fært frá árinu 2015. Mælanlegir þættir sem fylgst er með reglulega í bókhaldi skólans eru:

 • Samgöngur
 • Orkunotkun
 • Úrgangur
 • Innkaup
 • Efnakaup og ræstiþjónusta
 • Endurnýting

Sérstakar áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum

Minna kolefnisspor tengt starfsemi skólans Aðgerðir skólans miða að því að nettólosun gróðurhúsalofttegunda (losun – binding) verði engin fyrir árið 2030.

Markviss fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál Umhverfis- og loftslagsmál eru hluti af skólanámskrá Menntaskólans við Sund. Umhverfisfræði er skyldugrein fyrir alla nemendur skólans og skólinn miðlar áherslum sínum í umhverfis- og loftslagsmálum áfram til nemenda, forráðamanna og annarra sem kynna vilja sér starsemi skólans. Skólinn leggur áherslu á að miðla áfram til nemenda fræðslu um grænan lífstíl og er þátttakandi í verkefninu „Á grænni grein“ sem miðar að því að virkja nemendur til góðra verka á sviði umhverfismála. Langtímamarkmið fræðslu MS á sviði umhverfis- og loftslagsmála er að breyta viðhorfi til þessara mála þannig að umhverfis- og loftslagsmálin verði órjúfanlegur hluti af lífsýn komandi kynslóða þar sem virðing og umhyggja fyrir náttúrunni er höfð að leiðarljósi.

Skólinn beitir sér á virkan hátt í umhverfis- og loftslagsmálum með þátttöku í opinberum verkefnum á sviði umhverfis- og loftslagsmála Hér má nefna þátttöku MS í Grænu bókhaldi, Grænum skrefum og grænfánaverkefninu á Grænni grein og ýmsum umhverfisverkefnum á vegum Reykjavíkurborgar og annarra aðila sem láta sig þessi mál varða.

Kolefnisjöfnun Skólinn kolefnisjafnar ferðir á vegum skólans innanlands sem og erlendis. Haldið er sérstakt bókhald um kolefnissjóð skólans sem byggir á ákveðinni stofnskrá. Kolefnisjöfnun MS fer fram með viðurkenndum aðferðum og í samvinnu við opinbera aðila. Lögð er áhersla á að kolefnisjafna einnig losun skólans í tengslum við neyslu og losun úrgangs. Langtímamarkmið skólans er að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.

Hvataverkefni tengd grænum lífstíl Skólinn tekur þátt í og stendur fyrir hvataverkefnum á sviði umhverfis- og loftslagsmála og veitir bæði nemendum og starfsfólki styrk til þátttöku í slíkum verkefnum.

Árleg umhverfisvika í MS Umhverfisnefnd skólans og nemenda undir forystu kennara í umhverfisfræði standa fyrir árlegri umhverfisviku í MS að vori þar sem tvinnað er saman verkefnavinnu og fræðslu á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Eftirfylgni

Menntaskólinn við Sund hefur haldið Grænt bókhald frá árinu 2015 þar sem þýðingarmestu umhverfisþættir starfseminnar eru teknir saman. Niðurstöður Græns bókhalds MS eru notaðar til að móta stefnu skólans í umhverfismálum bæði til lengri sem skemmri tíma sem og til þess að setja markmið í aðgerðaáætlun skólans til þriggja ára í senn sem og nánari útfærslu ár hvert. Umhverfisnefnd skólans, undir stjórn rektors hefur það hlutverk að rýna árlega, og uppfæra eftir þörfum, umhverfis- og loftslagsstefnu skólans á grundvelli stefnu skólans í skólamálum hverju sinni og á grundvelli þeirra mælinga sem skólinn gerir á vægi einstakra umhverfisþátta sem fylgst er með í Grænu bókhaldi skólans og fræðsluhlutverki skólans á sviði umhverfis- og loftslagsmála er á ábyrgð rektors en námsframboð og námskrárhlutanum er fylgt eftir af námsbrauta og námskrárstjóra MS, endurmenntun og nýsköpun á þessu sviði er fylgt eftir af endurmenntunar- og nýsköpunarstjóra og umhverfisnefnd skólans hefur svo kynningarhlutverk og að halda utan um viðburði á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Rektor skólans ber svo ábyrgð á því að endurskoðun áætlana og markmiðssetning á sviði umhverfis- og loftslagsmála rati inn í stefnumótunarskjal skólans til þriggja ára sem skilað er til mennta- og menningarmálaráðuneytis ár hvert. Fylgst er með framgangi stefnunnar af umhverfisnefnd skólans og gögn þar um eru birt árlega í stefnumótunarskjali MS til ráðuneytis, í gögnum um grænt bókhald og á vefsvæði skólans.

Allir starfsmenn skólans skulu gæta þess í störfum sínum að framfylgja stefnu skólans í umhverfis- og loftslagsmálum.

Lög og reglur

Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans við Sund tekur mið af stefnu skólans og gildandi lögum og reglugerðum hverju sinni. Hér að neðan eru tíunduð nokkur lög og reglugerðir sem stefnan byggir á en ekki er um tæmandi lista að ræða.

 • Lög um loftslagsmál, nr. 70/2012 ásamt síðari breytingum
 • Lög nr. 98/2020 (Lög um breytingu á lögum nr. 70/2012)
 • Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2002
 • Upplýsingalög, nr. 140/2012
 • Efnalög, nr. 61/2013
 • Lög um framhaldsskóla, nr.92/2008
 • Aðalnámskrá framhaldsskóla
 • Reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 ásamt breytingum í reglugerð 450/2009
 • Reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 ásamt áorðnum breytingum

Nánar má lesa um áherslur skólans í umhverfismálum hér.

Síðast uppfært: 18.06.2024