Móttökuáætlun fyrir tvítyngda nemendur og þá sem eru með annað móðurmál en íslensku

1. Skimunarferli:

 • athuga hvort nemandi sé með annað móðurmál en íslensku
 • athuga stöðu á dönsku í grunnskóla
 • athuga hvort nemandi hafi undanþágu frá Norðurlandamáli

Í upphafi skólaárs hefst skimunarferli til að finna út hve margir nemendur við skólann falli undir málaflokkinn. Hafa skal í huga að íslenskir nemendur sem hafa dvalið langtímum erlendis geta þurft hliðstæða aðstoð á við nemendur af erlendum uppruna.

2. Upphafsdagur annar hjá nýnemum:

 • nemendum tilkynnt að þeir sjálfir geti leitað eftir þjónustu
 • nemendum tilkynnt að þeim beri að mæta á sérstakan fund síðar um daginn ásamt forráðamönnum.

Á upphafsdegi haustannar þegar nemendur byrja í skólanum er minnst á að nemendur sem falla undir málaflokkinn geti leitað til verkefnastjóra eða námsráðgjafa. Eins er ítrekað að skyldumæting sé síðar um daginn á sérstakan fund fyrir þessa nemendur og forráðamenn þeirra.

3. Kynningarfundur fyrir tvítyngda nemendur og þá sem eru með annað móðurmál en íslensku og forráðamenn þeirra:

 • farið yfir starfsemi og reglur skólans
 • kynnt hvaða þjónusta er í boði fyrir þessa nemendur
 • kynntur möguleiki á stöðumati í móðurmáli
 • kynntur möguleiki á móðurmáli sem valgrein
 • boðið uppá að panta sérstakt móttökuviðtal
 • minnt á að fólk þurfi sjálft að útvega túlk í móttökuviðtali ef þörf er á (ekki æskilegt að nemandi túlki fyrir forráðamenn)

Þennan fund sitja verkefnastjóri, námsráðgjafar og kennslustjóri.
Nemendum og forráðamönnum eru veittar nauðsynlegar upplýsingar um skólann, starfsemi hans og reglur. Kynnt er hvaða stuðningur og þjónusta stendur nemandanum til boða hvað varðar nám, námsráðgjöf og félagslíf. Hafi nemandi ekki þegar fengið móðurmál sitt metið til eininga í stað annars erlends tungumáls, má benda á þennan möguleika. Samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 er miðað við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu. Þeir fái möguleika á því að halda áfram að þjálfa móðurmál sitt, annað hvort með fjarnámi eða með öðrum leiðum. Þessir nemendur geta fengið það nám metið sem aðra sérhæfingu, að það komi í stað náms í dönsku eða sem einingar í vali. Í lok þessa fundar er fólki boðið uppá að panta sérstakt móttökuviðtal með verkefnastjóra og námsráðgjafa til þess að fara yfir stöðuna.

4. Móttökuviðtal:

 • fer fram í byrjun skólaárs
 • markmið er að afla upplýsinga um stöðu nemanda, bakgrunn hans og aðstæður
 • nemanda og forráðamönnum er leiðbeint hvert þeir geti leitað ef þörf er á þjónustu
 • reynt að finna út hvaða leiðir í námi henti best

Viðstaddir eru verkefnastjóri og námsráðgjafi. Í viðtalinu er aflað upplýsinga um bakgrunn nemandans og aðstæður hans svo skólinn geti mætt sem best þörfum hans. Nemanda og forráðamönnum eru veittar nauðsynlegar upplýsingar um skólann, starfsemi hans og reglur. Kynnt er hvaða stuðningur og þjónusta stendur nemandanum til boða í MS og hvernig námsráðgjöf og félagslífi er háttað. Fundið út hvaða leiðir í náminu væru æskilegastar. Hægt er að skoða stöðumat og námsgreinar í boði.

5. Miðannamat/ Persónuleg þjónusta:

 • eftirfylgni
 • hvetja nemendur að leita sér aðstoðar við skipulag á námi

Stöðumat á haustönn er notað fyrir eftirfylgni. Kennslustjóri hefur samband við forráðamenn þeirra nemenda sem fá 3 eða fleiri Ó í miðannamati og eru þeir nemendur hvattir til þess að nýta sér þjónustu verkefnastjóra málaflokksins og námsráðgjafa.

 

6. Jafningjastuðningur/mentor:

 • samstarf við nemendafélag um verkefni/viðburði sem tengjast fjölmenningu innan skólans

Verkefnastjóri hefur samband við stjórn Skólafélags skólans og hvetur það til þess að huga sérstaklega að tvítyngdum nemendum og þeim með annað móðurmál en íslensku með það markmið að leiðarljósi að þátttaka þeirra í félagslífinu verði sem mest. Hverju sinni er skoðað með hvaða hætti væri best að hrinda þessu í framkvæmd.

7. Samstarf við námsráðgjafa:

Verkefnisstjóri hefur samband við námsráðgjafa varðandi tvítyngda nemendur og þá með annað móðurmál en íslensku og reynt er að finna út í sameiningu hvað hægt sé að gera til þess að styðja við þessa nemendur.

 

Annað: Skólinn skoðar hverju sinni þörf á sérstöku námsframboði í íslensku fyrir þá nemendur sem hér um ræðir.

Sjá hér reglugerð nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku. 

Síðast uppfært: 02.06.2023