Skólareglur

Nemendum og starfsmönnum Menntaskólans við Sund ber að halda í heiðri eftirfarandi skólareglur:

  1. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur.
  2. Kurteisi, heiðarleiki og virðing skal ríkja í öllum samskiptum.
  3. Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.
  4. Virða skal verkstjórn kennara.
  5. Nemendum og starfsfólki ber að ganga vel um húsnæði og lóð skólans.
  6. Nemendur virði reglur um höfundarétt og notkun og skráningu heimilda.
  7. Nemendur virði skilafrest á verkefnum og kennarar tilgreini og virði skilatíma verkefna.
  8. Forföll starfsfólks skal tilkynna á skrifstofu skólans.
  9. Öll neysla og meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð í húsnæði og á lóð skólans sem og á atburðum skipulögðum af skólanum. Notkun og meðferð rafretta og nikótínpúða er einnig óheimil í skólanum og á atburðum á vegum skólans.

Í lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008 segir svo í 33. grein laganna:

Ábyrgð nemenda

  • Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum.
  • Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.
  • Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára.
  • Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess.
  • Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldur skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til ráðherra. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
  • Ráðherra mælir nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð. 1)] 2)

Í Menntaskólanum við Sund gilda auk þessa aðrar reglur, svo sem reglur um próf, reglur um vinnufrið, reglur um skólasókn, reglur um snjalltækjanotkun, reglur um umgengni og tölvunotkun en nánar er gerð grein fyrir þessum reglum sem og öðrum í skólanámskrá MS. Brjóti nemandi reglur skólans getur það leitt til áminningar og jafnvel brottrekstrar. Brottvísun getur verið tímabundin eða varanleg eftir eðli máls.

Um nemendur sem fylgdu eldri námskrá (voru í bekkjarkerfi og 4 ára námi til stúdentspróf) giltu í sumum tilfellum aðrar reglur sem lesa má um á eldri vef skólans (sjá tengil á forsíðu þessa vefs).

Síðast uppfært: 15.06.2022