Heilsueflandi framhaldsskóli

Það er margt sem hefur áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu framhaldsskólanema enda líf ungmenna gjarnan fjölbreytt og annasamt. Lífsstíll þeirra, vinir, fjölskylda, menning og umhverfi eru aðeins fáeinir áhrifaþættir sem nefna má í því samhengi. Einn vettvangur, sem skiptir verulega miklu máli, er framhaldsskólinn enda mótar hann að miklu leyti einstaklingana sem þar vinna og nema þótt hann sé vissulega ekki eylendi. Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum eru því brýn verkefni, ekki eingöngu vegna þess að góð líðan nemenda stuðlar að bættum námsárangri og minna brottfalli/brotthvarfi úr skólum heldur einnig vegna þess að það sem ungt fólk temur sér á unglingsárunum getur mótað heilsuhegðun þess til lengri tíma. M.ö.o. er um að ræða almenna líðan, velgengni og hamingju ungs fólks, bæði nú og til frambúðar (Lýðheilsustofnun, 2010).

Menntaskólinn við Sund er virkur þátttakandi í verkefninu "Heilsueflandi framhaldsskóli" og leitast við að markmið þess verkefnis birtist í framkvæmd í öllu skólastarfi í MS. Hugað er að næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

Heilsueflandi Reykjavík

Menntaskólinn við Sund er þáttakandi í verkefninu Heilsueflandi Reykjavík en það verkefni er hverfabundið og þeim hluta sem snýr að Laugardal, Háaleiti og Bústöðum var ýtt úr vör miðvikudaginn 30. 8.2017 með undirritun þeirra sem taka þátt í átakinu í hverfismiðstöðinni í Útvarpshúsinu.

Síðast uppfært: 01.09.2017