Ágrip af sögu skólans fyrstu árin

Árin niður við Tjörnina

Þegar skólinn var stofnsettur 1. október árið 1969 voru einungis fjórir framhaldsskólar fyrir á höfuðborgarsvæðinu, MR, MH, Verslunarskólinn og Iðnskólinn í Reykjavík. Hinn yngsti þeirra, MH, hafði tekið til starfa árið 1966 og vegna sívaxandi sóknar í framhaldsnám var nú nauðsynlegt að stofna nýjan framhaldsskóla.

Stofnun skólans bar mjög brátt að. Hinn 22. ágúst 1969 birti þáverandi menntamálaráðherra, dr. Gylfi Þ. Gíslason, auglýsingu um stofnun nýsmenntaskóla, Menntaskólans við Tjörnina. Nokkrum dögum síðar (1. október 1969) var skólinn tekinn til starfa í húsnæði Miðbæjarskólans við Fríkirkjuveg. Fyrsta árið var skólinn eins konar útibú frá MR og var rektor MR, Einari Magnússyni, falin yfirumsjón með nýja afkvæminu. Einn af kennurum við MR, Kristinn Kristmundsson, síðar skólameistari að Laugarvatni, hafði umsjón með daglegu skólahaldi. Fyrsta skólaárið störfuðu 30 kennarar við skólann, enginn fastráðinn. 195 nemendur hófu þá nám í tíu deildum fyrsta bekkjar.

Frá byrjun skólaárs 1970-1971 varð MT sjálfstæð stofnun og skipaður var rektor við skólann, Björn Bjarnason, sem gegndi því starfi til vorsins 1987. Árið 1970 var tekið upp annakerfi í skólanum, skólaárinu skipt í tvö námstímabil, haustönn og vorönn. Hélst sú skipan fram til ársins 2016 þegar nýtt þriggja ára kerfi tók við.

Húsnæði Miðbæjarskólans þótti óhentugt að mörgu leyti. Umferðargnýr, þrengsli og kuldi gerðu nemendum og kennurum oft lífið leitt. Þrátt fyrir þetta varð skólalífið mjög blómlegt frá fyrstu tíð. Góður andi ríkti og athafnasemi nemenda í félagslífinu var með eindæmum. Hafin var útgáfaskólablaðs (Andríki; níu tölublöð skólaárið 1971-72), stofnaður kór 1972 undirstjórn eins af nemendum skólans, Snorra Sigfúsar Birgissonar, og sama ár var færð upp fyrsta leiksýning nemenda.

Nemendafjöldi jókst mjög strax á fyrstu árunum. Haustið 1971 voru þeir orðnir 541 og varð að grípa til þess ráðs að tvísetja skólann. Árið1972 fékk skólinn fyrirheit ráðamanna um nýtt skólahúsnæði og var honum tryggð lóð ofarlega í Laugardal (skammt fyrir vestan Glæsibæ). Draumurinn um nýja skólann varð sem kunnugt er aldrei að veruleika. Þó voru mál komin á það stig1973 að skipuð hafði verið byggingarnefnd skólans, ráðinn arkitekt og veittar 2 milljónir króna á fjárlögum til undirbúnings verksins.

Hinn 30. maí 1973 voru fyrstu stúdentarnir útskrifaðir fráskólanum, 159 að tölu. Athöfnin fór fram í Háskólabíói og hefur svo verið flest árin síðan.

Í janúar 1974 var tekin upp við skólann nýbreytni í skólastarfi, sem nefnd var sæluvika. Venjuleg kennsla var þá felld niður í eina viku en nemendur unnu að ýmsum verkefnum að eigin vali, fóru í kynnisferðir,sóttu námskeið, hlýddu á fyrirlestra og á kvöldin önnuðust þeir dagskrá með margvíslegu efni. Sæluvikur héldust með líku sniði næstu tvö ár og til þeirra voru að nokkru leyti sóttar hugmyndir að góuvökum 1978-80, þorravökum 1981-91 og síðan akademíu.

Skólinn flytur í Vogana

Árið 1974 var tekin sú ákvörðun að hætta viðnýbyggingaráform skólans. Þess í stað var honum útvegað húsnæði í Vogaskóla. Um haustið fékkst hluti hans til afnota. Hélst sú skipan allt til vorsins 1976 að skólinn var starfræktur á tveimur stöðum, en þá var gamli Miðbæjarskólinn endanlega kvaddur og öll starfsemin flutt í núverandi húsnæði. Við flutninginn stórbatnaði öll aðstaða nemenda og kennara. Til dæmis var bókasafn sett á stofn, kennarar fengu vinnuherbergi, nemendur samkomusalinn Skálholt (1977) og kaffistofuna Kattholt (1978).

Þó að skólinn væri ekki lengur við Tjörnina hélt hann enn um sinn upprunalegu nafni sínu. Eftir miklar vangaveltur tók þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálmur Hjálmarsson, af skarið, kvað upp úrskurð sinn og tilkynnti við skólaslit vorið 1977 að skólinn skyldi eftirleiðis heita Menntaskólinn við Sund.