Stefna gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO-stefna) - STS-012

Stefna Menntaskólans við Sund er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi (hér eftir EKKO) og ótilhlýðileg háttsemi í hvaða mynd sem er sé ekki liðið. Leita skal allra ráða til að fyrirbyggja slíkt og leysa þau mál sem upp koma á sem farsælastan hátt. Í skólanum skal lögð áhersla á að efla vitund starfsfólks og nemenda um mikilvægi jákvæðra samskipta og gera þau einkennandi í skólasamfélaginu, t.d. með fræðslu um jafnrétti.

Viðbrögð við og meðferð EKKO mála og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi er nánar skilgreint í verklagsreglum:

Í Menntaskólanum við Sund er lögð áhersla á góðan starfsanda þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli allra starfsmanna. Starfsmönnum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hver öðrum tilhlýðilega virðingu og jákvætt viðmót.

Allir á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi. Þetta skiptir okkur öll miklu máli og við berum öll ábyrgð í þessum efnum. Því er mikilvægt að starfsfólk og nemendur láti vita ef upp koma neikvæð og erfið samskipti til að hægt sé að taka á málum.

EKKO mál verða undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum, hvorki í samskiptum starfsmanna, samskiptum starfsmanna og nemenda, samskiptum nemenda eða samskiptum við aðra einstaklinga sem sækja þjónustu til Menntaskólans við Sund.

Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli þegar rætt er um einelti og aðra ótilhlýðilega hegðun. Sérhver þolandi verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið.

Stefna þessi er sett á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Markmið

Í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, mun Menntaskólinn við Sund ekki líða neina slíka háttsemi né aðra ótilhlýðilega háttsemi sem særir eða meiðir einstaka starfsfólk eða nemendur. Stefna þessi er sett fram til að skýrt sé hvernig brugðist er við aðstæðum þar sem einstaklingur eða hópur nemenda eða starfsfólks telur sig verða fyrir EKKO eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað af hendi samnemenda eða samstarfsfólks.

Skilgreiningar

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður. Einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Önnur ótilhlýðileg háttsemi: Getur meðal annars falist í lítilsvirðandi framkomu, klámfenginni háttsemi eða snertingu sem þykir nærgöngul eða óviðeigandi.

Meintur þolandi: Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilegri háttsemi.

Meintur gerandi: Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilega háttsemi beinist að.

Skoðanaágreiningur milli starfsfólks/nemenda eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki undir neitt af ofangreindu.

Dæmin fyrir neðan sýna um hvers konar hegðun getur verið að ræða sem veldur því að meintur þolandi upplifir að hann sé lagður í einelti:

Starfstengdar athafnir:

 • Grafið er undan trausti á faglegri hæfni starfsmanns/nemanda eða frammistöðu hans.
 • Starfsmaður/nemandi er hafður undir stöðugu eftirliti og markvisst leitað að mistökum hans.
 • Starfs- eða verkefnatengdum upplýsingum er haldið frá starfsmanni/nemanda.
 • Geðþóttakenndar breytingar eru gerðar á verksviði starfsmanns/nemanda.
 • Ábyrgð er tekin af starfsmanni/nemanda án þess að ræða það við hann.
 • Gagnrýni er látin í ljós á niðrandi eða neikvæðan hátt í viðurvist annarra.
 • Vilji samstarfsmanna/samnemenda til aðstoðar er lítill.

Félagsleg útskúfun og særandi framkoma:

 • Starfsmaður/nemandi er markvisst sniðgenginn og útilokaður frá starfshópum og félagslífi.
 • Baktal og slúður.
 • Starfsfólk/nemendur skemmta sér á kostnað eins.
 • Niðrandi athugasemdir eða dylgjur.
 • Endurteknar skammir.
 • Endurtekin stríðni.

Gildissvið

Stefnan nær yfir alla starfsmenn og nemendur Menntaskólans við Sund sem og starfsmenn fyrirtækja/stofnana og einstaklinga sem eiga í samskiptum við skólann.

Stuðst verður við verklagsreglur:

 • VKL-205 Viðbrögð við og meðferð eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi - nemendur
 • VKL-206 Meðferð eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi - starfsfólk

Hlutverk og skyldur

Það er hlutverk stjórnenda, starfsfólks og nemenda að koma í veg fyrir EKKO eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað bæði með eigin athöfnum og tilkynningu um slíkt til konrektors (starfsmannamál) eða kennslustjóra (nemendamál).

Skyldur stjórnenda

Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna öðrum starfsmönnum tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi, stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum starfsmanna og taka á ágreiningsmálum. Viðbrögð skulu vera markviss og leitað lausna.

Stjórnendur skulu vinna að því að tryggja gott vinnuumhverfi og að samskipti í skólanum séu í samræmi við stefnu hans. Þeir skulu kynna nýjum starfsmönnum stefnu þessa og verklagsreglur VKL-205 og VKL-206. Stefna þessi og meðfylgjandi verklagsreglur skulu einnig rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum.

Stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um þær aðstæður í skólanum sem geta ýtt undir EKKO og fyrirbyggja óviðeigandi hegðun s.s. með því að taka strax á neikvæðu tali, vera fyrirmynd í framkomu og samskiptum og efla jákvæðan starfsanda. Þeir skulu gera starfsmönnum það ljóst ef hegðun þeirra er óviðeigandi.

Stjórnendur skulu bregðast við eftir því sem við á í samræmi við verklagsreglur VKL-205 eða VKL-206 ef kvörtun eða ábending berst um EKKO. Þeir skulu sýna varfærni, nærgætni og trúnað í öllum aðgerðum.

Skyldur starfsfólks

Það er hlutverk alls starfsfólks að koma í veg fyrir EKKO og aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað. Mikilvægt er að starfsfólk sýni samkennd og sé vakandi gagnvart allri slíkri háttsemi. Starfsfólk Menntaskólans við Sund á að þekkja gildi skólans, virða stefnu þessa, vera meðvitað um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á allri ótilhlýðilegri háttsemi og ágreiningsmálum.

Starfsfólki er óheimilt að leggja annað starfsfólk eða nemendur í einelti, áreita það eða beita það ofbeldi.

Hafa ber í huga að einstaklingur getur verið ómeðvitaður um að hegðun hans sé óviðeigandi. Því er mikilvægt að starfsfólk setji mörk og geri grein fyrir því ef því líkar ekki framkoma í eigin garð.

Skyldur nemenda
Nemendum er óheimilt að leggja aðra nemendur og/eða starfsfólk í einelti, áreita það eða beita það ofbeldi. Nemandi skal tilkynna til skólans telji hann sig hafa rökstuddan grun eða vitneskju um EKKO í skólanum. Til dæmis er hægt að tilkynna í gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu skólans.

Nemendur bera ábyrgð á háttsemi og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun, og skulu sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.

 

Forvarnir

Fyrirbyggjandi aðgerðir í ,,næstum því“ EKKO málum

Leiði mat á aðstæðum til þess að meint einelti, áreitni eða ofbeldi eigi sér ekki stað eða hafi ekki átt sér stað á vinnustaðnum skal samt sem áður grípa til aðgerða í því skyni að uppræta þær aðstæður sem kvartað hafði verið yfir eða bent verið á, séu aðstæðurnar enn til staðar, sem og í því skyni að koma í veg fyrir að aðstæðurnar komi upp aftur.

Reglulegt áhættumat

Rektor ber ábyrgð á því að tryggja að reglulega fari fram áhættumat skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Niðurstöður kannana nýttar til forvarna og eftir því sem á úrbóta

Niðurstöður úr könnunum um líðan starfsfólks, kennslukönnunum og Framhaldsskólapúlsinum eru nýttar í vinnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi í skólanum. Í þessari vinnu eru lykilaðilar innan skólans gæðaráð, forvarnateymi, aðgerðarhópur EKKO mála og nemendaþjónusta.

Krossgötur

Í áfanganum Krossgötur sem allir nemendur stunda er áhersla lög á öryggi, samskipti og mörk, kynheilbrigði, jákvæða sjálfsmynd og geðrækt.

Kynjafræði

Öllum nemendum skólans gefst kostur á að stunda nám í kynjafræði.

Þjálfun stjórnendateymis / aðgerðarhóps EKKO mála

Stjórnendateymi / aðgerðahópur EKKO mála fær þjálfun í móttöku kvartana af þeim toga sem falla undir EKKO. Stjórnendur þurfa að geta sýnt hluttekningu og virka hlustun og geta veitt þann stuðning sem nauðsynlegur er í atvikum sem þessum. Einnig er mikilvægt að stjórnendur þekki þau úrræði sem standa starfsfólki til boða til að mynda viðtal við fagaðila eða annan viðeigandi stuðning. Stjórnendur þurfa auk þess að sækja endurmenntun bæði í eðli EKKO mála (til að þekkja skilgreiningar og birtingamyndir) sem og meðhöndlun EKKO mála (um viðbrögð, tilkynningar, inngrip o.þ.h.) í starfi sínu sem stjórnendur.

Verkferlar sýnilegir og aðgengilegir

Allir nýir starfsmenn skólans fá fræðslu um stefnu þessa og verklagsreglur sem skólinn fylgir varðandi EKKO mál. Einnig er verklagið rifjað upp reglulega á starfsmannafundum og það aðgengilegt í starfsmannahandbók.

 

Tilvísanir í skjöl rekstrarhandbókar og ytri skjöl

 • VKL-205 Viðbrögð við og meðferð eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi - nemendur
 • VKL-206 Meðferð eineltis, áreitis og ofbeldismála kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi - starfsfólk
 • Reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
 • Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.

 

Síðast uppfært: 12.01.2023