MYND2MD05 - Myndbygging

Í áfanganum læra nemendur að vinna áfram með teikningu, módel og málun. Unnið verður með nakið módel, mismunandi stöður, tímalengd og aðferðir. Lögð er áhersla á að þjálfa hæfni nemenda í að nýta sér tækniþekkingu við að koma hugmyndum sínum á framfæri. Gerðar tilraunir með mismunandi tegundir /aðferðir málunar, s.s vatnsliti, akrýl og mögulega olíu. Nemendur vinna í ferilbók og nýta hana til að þróa hugmyndirnar áfram í átt að fullgerðum verkum með tilraunum og skissum. Lögð er áhersla á tengingu við listina og listasöguna og unnið verk með tengingu við stefnur í myndlist. Nemendur taka þátt í að tilgreina þá myndlistarmenn sem þeir þekkja til og útbúa kynningu á erlendum myndlistarmanni (2 saman) og flytja fyrir samnemendur sína.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • hlutföllum mannslíkamans
  • helstu listastefnum og listmiðlum, geta unnið út frá þeim
  • gildi og merkingu lita og tjáningarmöguleika
  • meginreglum litafræðinnar, meðhöndlun lita og mismunandi bindiefna
  • lykilverkum nokkurra myndlistamanna

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • tileinka sér teikniaðferðir með mismunandi teikniáhöldum
  • teikna mannslíkamann, hluti og skissur
  • forma með skyggingu og að vinna með fjarvídd/dýpt
  • fara með liti, blanda þá og mála með mismunandi aðferðum

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • tjá eigin hugmyndir og hugsanir á myndrænan hátt
  • útskýra í orðum og myndum eigið vinnuferli
  • sýna frumkvæði, skapandi nálgun og sjálfstæði í verkum sínum
  • leita að upplýsingum um myndlist og nýta sér þær

Gerð er grein fyrir námsmati og sundurliðun þess í námsáætlun.

Undanfari: MYND1MG05