ÞÝSK1GR05 - Grunnáfangi í þýsku

Í byrjunarnáminu er megináhersla á að nemendur tileinki sér undirstöðuatriði tungumálsins. Nemendur eru þjálfaðir í færniþáttunum fjórum: tali, hlustun, ritun og lesskilningi. Áhersla er á framburð, grunnatriði málnotkunar og uppbyggingu orðaforða. Nemendur kynnast rafrænum orðabókum og rafrænni aðstoð við þjálfun framburðar. Nemendur kynnast menningu, siðum og staðháttum viðkomandi málsvæðis. Í lok annar eiga nemendur að hafa náð kunnáttu upp á stig A1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

 • þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til að ná leikni- og hæfnimarkmiðum áfangans
 • helstu grundvallarþáttum málkerfis viðkomandi tungumáls s.s. framburði, tónfalli og einfaldri setningaskipan
 • mannlífi, menningu og siðum í löndum þar sem viðkomandi tungumál er talað
 • einföldum samskiptum og tjáningu í mæltu og rituðu máli

Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • skilja talað mál um kunnugleg efni þegar talað er skýrt
 • skilja einfalda texta sem innihalda algengan orðaforða sem tengist nemandanum, umhverfi hans og áhugamálum og vinna úr þeim á mismunandi hátt
 • taka þátt í einföldum samræðum, tjá sig á einfaldan hátt og beita kurteisis- og málvenjum við hæfi
 • segja á einfaldan hátt frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni, athöfnum og atburðum daglegs lífs á sem réttastan hátt
 • geta skrifað stuttan, einfaldan texta um sjálfan sig og sitt nánasta umhverfi
 • geta sagt einfalda sögu, lýst atburðum og sagt frá fyrirætlunum sínum í stuttu máli
 • nýta sér ýmis hjálpargögn í tungumálanáminu

Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • greina einfaldar upplýsingar í mæltu máli og skilja talað mál um kunnugleg efni
 • skilja einfalda texta
 • tjá sig munnlega við tilteknar aðstæður og beita viðeigandi mál- og samskiptavenjum
 • segja frá persónulegum högum, þekkingu sinni og skoðunum á einfaldan hátt
 • skrifa einfalda texta um málefni og atburði byggða á persónulegri og ímyndaðri reynslu

Gerð er grein fyrir námsmati og sundurliðun þess í námsáætlun.

Undanfari: Enginn