Verklagsreglur MS um tilkynningaskyldu til barnaverndarnefnda

Menntaskólinn við Sund fylgir reglum um tilkynningaskyldu til barnaverndarnefnda í samræmi við lög nr. 80/2002 og verklagsreglur þær sem Umboðsmaður barna hefur unnið í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Barnavernd Reykjavíkur og Barnarverndarstofu.

Ákvæði í lögum um tilkynningarskyldu þeirra sem hafa afskipti af börnum

Í lögum nr. 80/2002 segir:

17. gr.Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

[Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.] 1)

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, [náms- og starfsráðgjöfum] 1) og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Tilkynningarskylda gengur því framar trúnaðarskyldu ef um er að ræða atvik sem benda til að aðbúnaður og uppeldisaðstæður barns séu óviðunandi, barn sé í hættu eða grunur er um að barn hafi framið refsiverðan verknað eða refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni. Við slíkar aðstæður eru þeir hagsmunir sem í húfi eru, ef tilkynningarskyldu er ekki fullnægt, mun meiri og ríkari en hagsmunir sem tengjast trúnaði við barnið. Þegar atvik eru með þessum hætti er mikilvægt að starfsmaðurinn upplýsi barn um að á honum hvíli skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um málið vegna alvarleika þess. Hann verður að útskýra vel fyrir barni ástæðuna og þær afleiðingar sem tilkynning kunni að hafa fyrir barnið og fjölskyldu þess. Það er ótvíræður réttur barns að starfsmaður segi barni frá því ef hann verður að rjúfa trúnað við það vegna fyrirmæla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. Mikilvægt er að starfsmenn MS virði þennan rétt barnsins.

Um hvað er tilkynnt

Helstu atriði sem tilkynnt er um varða grun eða vissu um vanrækslu, ofbeldi eða að barn stefnu heilsu sinni og þroska í hættu. Þar sem erfitt getur verið að tengja ofbeldi eða vanræsklu við eitthvert eitt atriði og ljóst er að ekki er hægt að nefna öll tilvik eða aðstæður þar sem barnaverndaryfirvöld eiga að koma að máli er hvert tilvik metið sjálfstætt.

Hver tilkynnir og hvernig

Tilkynning til barnaverndarnefnda vegna mála sem snerta nemendur MS er send í nafni skólans. Alla jafna er gert ráð fyrir því að mál séu tilkynnt til skrifstofu eða beint til rektors þó þau tilvik kunna að koma upp að starfsmaður tilkynnir mál til barnaverndaryfirvalda í eigin nafni.

Gert er almennt ráð fyrir að tilkynnt sé í nafni Menntaskólans við Sund og að tilkynningin sé á ábyrgð skólans en ekki einstakra starfsmanna. Stofnunin nýtur ekki nafnleyndar sbr. 19. gr. barnaverndarlaganna.Tilkynna skal til barnaverndarnefndar þar sem barn býr. Þrátt fyrir að verklag skólans geri ráð fyrir ákveðnu ferli innan stofnunar getur einstakur starfsmaður einnig tilkynnt til barnaverndarnefndar. Tilkynningin er þá frá viðkomandi starfsmanni sem nýtur ekki nafnleyndar. Þegar tilkynnt er um vanrækslu eða áhættuhegðun barns er oftast nær um að ræða ástand sem hefur varað í lengri tíma og hefur ekki breyst nægjanlega þrátt fyrir ábendingar og leiðbeiningar starfsmanna til foreldra. Í þessum tilvikum getur tilkynning til barnaverndarnefndar verið gerð á fundi þar sem starfsmaður skóla, foreldri og barnaverndarstarfsmaður fara yfir málið. Sé það ekki unnt er hægt að tilkynna til barnaverndarnefndar skriflega eða símleiðis. Hér þarf að meta aðstæður barnsins, ástæður tilkynningar svo og vinnulag skólans og barnaverndarnefndar í hverju tilviki og því getur fyrirkomulag við móttöku tilkynninga verið breytilegt milli staða. Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er mikilvægt að ræða ekki við barnið um það heldur hafa strax samband við barnaverndarnefnd. Það er síðan hlutverk barnaverndarstarfsmanna að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um það gilda. Tilkynningin þarf að vera rökstudd. Þegar erfitt er að meta hvort um vanrækslu sé að ræða eða ekki leitast skólinn við að fá aðstoð fagfólks við ferlið. Í þessum tilvikum hringir skólinn ef til vill í viðkomandi barnaverndarnefnd og ræðir tilvikið nafnlaust og í framhaldi af því er tekin ákvörðun um hvort tilkynna eigi um málið eða ekki.

Samskipti við foreldra

Að jafnaði eru foreldrar látnir vita af tilkynningunni og þeim er gerð grein fyrir að starfsmenn skóla séu að fylgja lagaskyldu um að tilkynna grun um vanrækslu eða ofbeldi til barnaverndarnefndar. Í samtali við foreldra skal koma fram að málið snúist um velferð barnsins og stuðning við það og fjölskyldu þess. Markmiðið sé að leita lausna og veita viðeigandi stuðning.

Þegar grunur hefur vaknað um að barn búi við ofbeldi á heimili sínu, hvort heldur sem er líkamlegt eða kynferðislegt er haft beint samband við barnaverndarnefnd án þess að upplýsa foreldra um það. Ástæðan er sú að búi barn með einhverjum sem beitir ofbeldi getur verið hætta á að barnið verði beitt enn meira ofbeldi eða hótunum ef viðkomandi veit að tilkynnt hefur verið til barnaverndarnefndar. Í sumum tilvikum sæta þessi mál einnig lögreglurannsókn og mikilvægt er að meintur gerandi fái ekki tækifæri til að hafa áhrif á framburð barnsins. Komi barn með sýnilega áverka í skóla eða segi frá alvarlegu ofbeldi skal samstundis hafa samband við barnaverndarnefnd.

Upplýsingaskylda gagnvart barnaverndarnefnd

Mikilvægt er fyrir barnaverndarnefndir að eiga greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um börn og foreldra við könnun barnaverndarmáls til að meta aðstæður barnsins. Upplýsingaskyldan gildir óháð því hvort skólinn hefur tilkynnt um málið til barnaverndarnefndar eða ekki. Þessi ákvæði eru tiltekin í 44. gr. barnaverndarlaganna. Þar segir m.a. :" . ..Með sama hætti er öllum stofnunum og öðrum aðilum þar sem barn hefur dvalist eða kemur reglulega, svo sem skólum, dagvistarheimilum og félagsmiðstöðvum fyrir börn og unglinga, skylt að láta nefndinni í té upplýsingar sem hún telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins."

Þá segir einnig í sömu grein: " Upplýsingaskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu einstakra starfsstétta” Barnaverndarlög nr. 80/220 44. gr.4.

Síðast uppfært: 11.09.2019