Þátttaka í forvarnar- og heilsueflingaráætlun Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis

Forvarna – og heilsueflingaráætlun ÞLH

Leiðarljós í Aðgerðaáætlun hverfanna Laugardals – Háaleitis og Bústaða 2016-2018 miðar að því að hverfin verði fjölskylduvæn og íbúar eigi heilsueflandi samfélag þar sem fólki líður vel. Að íbúarnir fái hvatningu um að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, taki þátt í félagslífi sem eflir jákvæða sjálfsmynd þeirra og að þeir búi við góð lífskjör. Áætlunin miðar að því að allir aldurshópar búi við öruggt og uppbyggilegt nærumhverfi.

Foreldrasamstarf, tengsl kynslóða í hverfinu og almennt félagslegt tengslanet hverfis er afar mikilvægur þáttur í forvörnum sem og menning og blómlegt mannlíf. Í gegnum virkt tengslanet er hægt að miðla mikilvægum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að almenningur sé upplýstur um stefnur og strauma og helstu viðburði og þjónustu. Slík samvinna í nærumhverfinu og efling félagsauðs er verndandi þáttur fyrir börn og unglinga, styður foreldra í uppeldishlutverkinu og er hvatning til meiri virkni fólks á seinni æviskeiðum.

Með auknum félagsauði í hverfunum eflist hverfisvitund og tengsl fólks innan hverfis verða meiri. Samstarf íbúa og samstarf við starfsstöðvar borgarinnar innan hverfa um uppeldisleg gildi og heilsueflingu hefur í sér forvarnargildi.

Umhverfis – og skipulagsmál, samgöngur, aðgengi að þjónustu og vitund fólks um mikilvægi þessara þátta í tengslum við heilsueflingu og forvarnir eru áhersluatriði þessa starfsárs 2016 – 2017 auk áherslu á notendasamráð.

Síðast uppfært: 29.08.2017