Undanþágur frá skólanámskrá

Nám til stúdentsprófs við Menntaskólann við Sund er skilgreint sem 200 einingar. Nemendur geta valið um nám á tveimur námsbrautum, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut, og skiptast þær í fjórar námslínur. Félagsfræðabrautin skiptist í félagsfræði-sögulínu og hagfræði-stærðfræðilínu en náttúrufræðibrautin skiptist í efnafræði-líffræðilínu og eðlisfræði-stærðfræðilínu. Hver braut og hver námslína inniheldur ákveðna áfanga sem nemandinn verður að taka og þeir eru í almennum kjarna og brautarkjarna en einnig í sérhæfingu brautar eftir að nemandi hefur valið hana. Síðan þarf nemandinn að taka ákveðinn fjölda eininga í sérhæfðu vali og frjálsu vali en þar skiptir meira máli að áfangarnir séu úr réttum námsgreinaflokki og á ákveðnu hæfniþrepi. Allir nemendur skólans þurfa að taka 6 einingar í íþróttum sem skiptast í 6 mismunandi áfanga. Almennt er gert ráð fyrir að nemandi ljúki námi í íþróttum á fyrstu tveimur námsárum sínum en ef sú staða kemur upp að nemandi getur ekki, einhverra hluta vegna, sinnt íþróttanámi sínu á þeim tíma sem skipulagt er þarf hann að taka þann áfanga síðar.

Umsókn um frávik frá skólanámskrá

Nemandi sem óskar eftir einhverjum frávikum frá skólanámskrá þarf að óska formlega eftir því að fá undanþágu frá námskránni. Undanþágur frá skólanámskrá eru aðeins veittar í undantekningartilvikum og það er rektor skólans sem veitir þær eftir að umsókn hefur verið tekin til umfjöllunar í skólaráði.

Meðferð vottorða vegna íþrótta

Umsóknum skal skilað til skrifstofu skólans og þær merktar; Skólaráð - Umsókn um frávik frá námskrá

Síðast uppfært 12.4.2024