03.11.2025
Ekki verður opnað fyrir umsóknir um skólavist í MS á vetrarönn 2025. Áhugasömum er bent á að fylgjast með upplýsingum um innritun á vorönn uppúr miðjum janúar mánuði.
29.10.2025
Skólastarf fer fram samkvæmt stundaskrá í dag. Veður er gengið niður. Búið er að rýma götur en talsverð hálka er á öllu höfuðborgarsvæðinu. Fólk er hvatt til þess gefa sér góðan tíma og leggja snemma af stað til vinnu og skóla því gera má ráð fyrir miklum umferðartöfum í morgunsárið.
23.10.2025
Haustfrí verður í MS mánudaginn 27. október. Í kringum þessa helgi eru einnig matsdagar, þ.e. föstudaginn 24. október og þriðjudaginn 28. október. Ekki er kennt samkvæmt stundaskrá þessa daga en nemendur geta verið kallaðir inn í verkefni eða próf. Dagskrá matsdaga má sjá hér á myndinni. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að vera í sambandi við sína kennara varðandi verkefni og próf á matsdögum og mæta á réttum stað og stund.
10.10.2025
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti skólann í vikunni ásamt fríðu föruneyti úr ráðuneytinu til að kynna hugmyndir sínar um nýjungar á framhaldsskólastiginu fyrir starfsfólki. Ráðherrann fékk leiðsögn um skólann og hitti nemendur og starfsfólk. Ráðherra nefndi sérstaklega hvað nemendur væru glaðlyndir og orkumiklir. Við þökkum ráðherra og föruneyti kærlega fyrir komuna í MS!
03.10.2025
Umhverfisnefndir Menntaskólans við Sund og Fjölbrautaskólans við Ármúla fóru saman í ferð á Sólheimajökul í byrjun október ásamt nemendum í kvikmyndagerð við Fjölbrautaskólann við Ármúla og fulltrúa frá Félagi Sameinuðu þjóðanna. Ferðin var farin í tilefni af alþjóðaári jökla hjá Sameinuðu þjóðunum og var tilgangurinn að nemendur fengju innsýn í áhrif loftslagsbreytinga á jökla og hvernig við hér á Íslandi getum séð með eigin augum hversu mikil og alvarleg þau áhrif eru. LESA MEIRA...
24.09.2025
Þessa dagana eru framkvæmdir við sex nýjar kennslustofur á fullu á skólalóðinni. Innangengt verður úr skólanum inn í þessa nýju tengibyggingu. Það verður spennandi að fá þessar nýju björtu stofur í notkun og næsta skref er svo að finna nafn á nýju bygginguna en efnt til nafnasamkeppni þegar nær dregur opnun.
23.09.2025
Fyrstu matsdagar skólaársins eru framundan og hér má sjá dagskrá matsdaga. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að vera í samskiptum við kennara og mæta í sín próf/verkefni á réttum stað og stund.
22.09.2025
Í ágústmánuði fór jafnlaunakerfi skólans í endurvottunarferli hjá Versa vottun í samræmi við kröfur. Skólinn hefur nú fengið vottun þess efnis að jafnlaunakerfið er starfrækt í samræmi við kröfur ÍST 85:2012. Jafnlaunakerfið nær til alls starfsfólks MS og nánar má fræðast um það hér á heimasíðunni.
05.09.2025
Það hefur sannarlega verið mikið líf og fjör við upphaf nýs skólaárs í MS. Skólastarfið hófst formlega með móttöku nýnema 22. ágúst og hópefli þar sem nemendur úr stjórn SMS ásamt starfsfólki MS hristi saman hópinn. Kennsla hófst mánudaginn 25. ágúst og þétt er setið í hverri stofu enda hvert pláss við skólann skipað. Vinnuvélar standa á skólalóðinni sem setja tóninn fyrir nýja önn en til stendur að færanlegar kennslustofur verði tilbúnar við skólann á vetrarönn og ljóst að þá verður aðeins rýmra um okkur í skólanum. Bílastæðum við skólann hefur fækkað til muna á meðan þessum framkvæmdum stendur og nemendur og starfsfólk því hvatt til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta á meðan.
22.08.2025
Stundatöflur haustannar 2025 eru nú tilbúnar í INNU. Skólastarfið hefst mánudaginn 25. ágúst með skólasetningu kl. 8:30 í íþróttahúsinu og kennsla strax í kjölfarið samkvæmt stundaskrá. Opnað hefur verið fyrir beiðnir um töflubreytingar á stúdentsbrautum í Innu og verður hægt að óska eftir töflubreytingum til kl. 15:00 mánudaginn 25. ágúst. Athugið að taka mið af undanförum en nemendur þurfa að ljúka undanfara til að komast í næsta áfanga í mörgum tilfellum. Lesa meira...