STEM fyrir framtíðina

Anh Ngoc, Bríet, Freyja Katrín og Ingunn Anna
Anh Ngoc, Bríet, Freyja Katrín og Ingunn Anna

Síðastliðið sumar tóku nokkrir nemendur úr MS þátt í verkefninu STEM fyrir framtíðina. Anh Ngoc, nemandi úr Kvennaskólanum í Reykjavík, stóð fyrir verkefninu auk þess að gera sjálf rannsókn. Markmið verkefnisins er að veita stelpum og stálpum í framhaldsskóla tækifæri til að stunda stafræna vísindarannsókn undir leiðsögn háskólakennara og framhaldsnema við ýmsa háskóla. Verkefnið stóð yfir í sex vikur í júlí og ágúst. Í verkefninu fengu nemendur að kynnast rannsóknaraðferðum og vinnubrögðum sem nýtast þeim í framhaldsnámi í tækni- og vísindagreinum. Leiðbeinendur í verkefninu eru meðal annars úr Stanford University, University of Southern California, University of British Columbia, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.

Nemendur MS sem tóku þátt unnu rannsóknarverkefni á ensku undir leiðsögn erlendra háskólakennara og skrifuðu vísindagrein í kjölfarið. Þrír nemendanna kynntu rannsóknir sínar á Menntabúðum kennara og starfsfólks í MS þann 3. desember síðastliðinn og Anh Ngoc sagði frá verkefninu.

Freyja Katrín Oddsteinsdóttir rannsakaði þróun vistvænna fjölliða og möguleika þeirra til að leysa hefðbundið plast af hólmi. Hún skoðaði efni eins og PHA, sellulósa-, prótein- og þörungaplast og hvernig þau geta minnkað umhverfisáhrif og stutt við hringrásarhagkerfi.

Bríet Pétursdóttir fjallaði um plastmengun og lausnir sem byggja á hringrásarhagkerfi. Hún skoðaði hvernig ný efni og efnafræðilegar endurvinnsluaðferðir geta breytt úrgangi í verðmætar byggingareiningar og hvernig lífbrjótanlegt plast og nýjar efnasamsetningar geta stuðlað að sjálfbærni.

Ingunn Anna Jónsdóttir beitti stærðfræðilegu SIR-líkani til að greina útbreiðslu svokallaðrar Akureyrarveiki sem herjaði á Norðurland á árunum 1948–1949. Í verkefninu er sýnt hvernig smit dreifðist í litlu samfélagi og hvernig breytur eins og smitstuðull og batahraði hafa áhrif á þróun faraldra.

Það er mikill fengur fyrir nemendur að fá tækifæri til að taka þátt í svona metnaðarfullum verkefnum og ljóst að þarna eru efnilegar ungar vísindakonur á ferð.