Nemendaferðir til Berlínar og Parísar

Í lok október fóru nemendur í borgaráföngum í þýsku og frönsku í ferðir til Berlínar og Parísar. Í borgaráföngunum undirbúa nemendur ferðirnar og vinna verkefni um borgirnar, sögu þeirra og mannlíf, ásamt því að þjálfa samskipti á tungumálunum. Áföngunum lýkur svo með borgarferð.

Þýskunemendur dvöldu í Berlín 23.-26. október og fengu að upplifa borgina til fullnustu. Meðal hápunkta var heimsókn í DDR-safnið, leiðsögn með Berlínum um Berlín á tímum Berlínarmúrsins og heimsókn í þinghúsið Deutscher Bundestag. Hópurinn skoðaði einnig Brandenborgarhliðið, Potsdamer Platz og minnisvarða um ofsótta gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni.

Frönskunemendur héldu til Parísar 25. október og hófu ferðina á heimsókn í Eiffelturninn. Hápunktar ferðarinnar voru heimsókn í Louvre-listasafnið, stærsta listasafn heims, kvöldsigling á Signu og gönguferð um Montmartre-hverfið þar sem þau sáu meðal annars hinn fræga vegg ástarinnar eða Le mur des je t'aime.

Heimferð Parísarhópsins varð að ævintýri út af fyrir sig þegar flugi heim var aflýst vegna veðurs á Íslandi. Hópurinn komst loks heim heill á húfi daginn eftir, ánægður með vel heppnaða ferð.