Brautskráning haustannar 2025

Í dag brautskráðust 11 nemendur frá Menntaskólanum við Sund en skólinn brautskráir nýstúdenta við lok hverrar annar í þriggja anna kerfi. Athöfnin var að vanda hátíðleg og flutti kór starfsfólks nokkur lög undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur.

Nýstúdentarnir í dag brautskráðust af þremur námslínum; líffræði- og efnafræðilínu, hagfræði- og stærðfræðilínu og félagsfræði- og sögulínu. Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor skólans, flutti ávarp við athöfnina og hrósaði hún útskriftarnemum fyrir árangur sinn og seiglu. Hún sagði að í MS væri lögð áhersla á að taka vel á móti nemendum, mæta þeim þar sem þeir eru staddir og styðja þá í námi og þroska. Útskriftarnemarnir hafi sýnt útsjónarsemi, þrautseigju og dugnað og skarað fram úr, hver á sinn hátt. Rektor þakkaði að lokum samstarfsfólki sínu fagmennsku og góð störf í þágu nemenda og óskaði viðstöddum gleðilegra jóla.

Innilegar hamingjuóskir, kæru nýstúdentar!