Sprotasjóður 2024

Menntaskólinn við Sund hlaut styrk í úthlutun Sprotasjóðs fyrir tvö verkefni vorið 2024.

Verkefnið Sköpum samhljóm hlaut 2.500.000 kr styrk. Markmið Samhljóms er að laða að nemendur til tónlistarsköpunar sem ekki hafa valið raftónlist í MS og rjúfa einangrun þeirra sem vilja taka þátt í skapandi stafi og tengjast öðrum nemendum. Hluti af verkefninu snýst um að skapa tónlist og taka upp í stúdíói Tónhyls í Árbæ. Umsjónarmenn verkefnisins eru þeir Einar Indra og Andri Már Magnason. Einar kennir raftónlist við skólann og Andri er tónlistarmaður meðfram því að kenna félagsgreinar í MS. Verkefninu lýkur vorið 2025.

Verkefnið „Finndu mig í fjöru“ er samstarfsverkefni Grandaskóla, MS og Náttúruminjasafns Íslands. Í verkefninu er samþætting á milli námsgreina: textíl, umhverfisfræði og kvikmyndagerð. Judith Amalía Björnsdóttir textílkennari við Grandaskóla og Katrín Magnúsdóttir umhverfisfræðikennari í MS fengu styrk frá Sprotasjóði fyrir verkefninu og fengu safnkennara frá Náttúrminjasafni Íslands í lið með sér. Nemendur fjalla í sameiningu um lífríki fjörunnar og er skipt niður á hlutverk þar sem sumir sinna rannsóknar hlutverki, aðrir listrænu hlutverki og þriðji hópurinn skrásetur allt ferlið og býr til heimildamynd sem verður skilað til Sprotasjóps. Verkefninu lýkur vorið 2025.