Skólafundur í MS – nemendur, starfsfólk og foreldrar móta saman framtíðargildi skólans

Þann 14. janúar síðastliðinn var haldinn skólafundur í MS þar sem bæði nemendur, starfsfólk, fulltrúar foreldra og skólanefnd tóku þátt í vinnu við að endurskoða og móta gildi skólans. Fundurinn var liður í því að efla skólabrag, stuðla að festu í skólastarfi og tryggja að gildi skólans endurspegli allt skólasamfélagið.

Fundurinn fór fram í tveimur hlutum. Fyrst unnu allir nemendur undir stjórn kennara í kennslustofum að því að skilgreina hvaða gildi skipta þá mestu máli í skólastarfi. Niðurstöður þeirra voru síðan teknar saman og kynntar á seinni hluta fundarins. Þar fór fram sameiginleg vinnustofa með starfsfólki, fulltrúum nemenda og foreldra auk fulltrúa skólanefndar, þar sem hópar völdu og ræddu þau gildi sem þeir töldu mikilvægust fyrir framtíð skólans.

Algengustu gildin sem komu fram voru meðal annars virðing, ábyrgð, metnaður, jákvæðni, traust, samvinna, umhyggja, jafnrétti og vellíðan.

Á skólafundinum mátti greina sterkan vilja til að byggja upp menningu innan skólans sem einkennist af jákvæðu og öflugu samfélagi þar sem allir fá að njóta sín. Unnið verður áfram með öll þau gögn og hugmyndir sem fram komu á fundinum, í góðu samráði við fulltrúa allra hópa skólasamfélagsins. Stefnt er að því að þeirri vinnu verði lokið fyrir upphaf næstu annar.

Skólafundurinn var vel heppnaður og er nemendum og fulltrúum foreldra sérstaklega þakkað fyrir að taka þátt í að móta framtíðargildi skólans.