Ferð umhverfisnefndar á Sólheimajökul

Umhverfisnefndir Menntaskólans við Sund og Fjölbrautaskólans við Ármúla fóru saman í ferð á Sólheimajökul í byrjun október ásamt nemendum í kvikmyndagerð við Fjölbrautaskólann við Ármúla og fulltrúa frá Félagi Sameinuðu þjóðanna. Ferðin var farin í tilefni af alþjóðaári jökla hjá Sameinuðu þjóðunum og var tilgangurinn að nemendur fengju innsýn í áhrif loftslagsbreytinga á jökla og hvernig við hér á Íslandi getum séð með eigin augum hversu mikil og alvarleg þau áhrif eru.

Meðan á ferðinni stóð tóku nemendur upp myndefni sem verður notað í myndband sem þau munu gera um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla. Myndbandinu er ætlað að vekja ungt fólk til umhugsunar um þau áhrif sem nútímalifnaðarhættir hafa á umhverfið með sérstakri áherslu á jökla.

Áður en ferðin var farin fengu nemendur fræðslu um jökla frá Hrafnhildi Hannesdóttur, jöklafræðingi hjá Veðurstofu Íslands. Með í ferðina fóru svo reyndir jöklaleiðsögumenn sem miðluðu fróðleik til nemenda um jökla og áhrif loftslagsbreytinga á þá.

Ferðin gekk vel í alla staði og voru nemendur áhugasamir og til fyrirmyndar meðan á ferðinni stóð.

Ferðin var farin í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna fyrir styrk úr loftslagssjóði ungs fólks hjá Reykjavíkurborg.