Líf og fjör við upphaf haustannar

Það hefur sannarlega verið mikið líf og fjör við upphaf nýs skólaárs í MS. Skólastarfið hófst formlega með móttöku nýnema 22. ágúst og hópefli þar sem nemendur úr stjórn SMS ásamt starfsfólki MS hristi saman hópinn. Kennsla hófst mánudaginn 25. ágúst og þétt er setið í hverri stofu enda hvert pláss við skólann skipað. Vinnuvélar standa á skólalóðinni sem setja tóninn fyrir nýja önn en til stendur að færanlegar kennslustofur verði tilbúnar við skólann á vetrarönn og ljóst að þá verður aðeins rýmra um okkur í skólanum. Bílastæðum við skólann hefur fækkað til muna á meðan þessum framkvæmdum stendur og nemendur og starfsfólk því hvatt til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta á meðan.

Veðrið hefur líka leikið við okkur í skólabyrjun og skein sólin skært í nýnemaferðinni í fyrstu kennsluvikunni. Stór hópur nýnema ásamt stjórnarfólki SMS fjölmennti í Vatnaskóg í skemmtilega dagskrá og hópefli, bátasiglingar og kvöldvöku. Það voru þreyttir en sælir MS-ingar sem sneru aftur í skólann daginn eftir.

Kennsla haustannar er komin á fullt og frestur til úrsagna úr áföngum er liðinn. Á næstu dögum halda nýnemadagar áfram með dagskrá SMS í frímínútum og á kvöldin. Nýnemaviðtöl fara fram í næstu viku en þar gefst nýnemum kostur á að bjóða sig fram til nefndarstarfa fyrir SMS. Nýnemadagar ná svo hámarki með nýnemadansleiknum þann 11. september.

Við í MS hlökkum til að starfa með frábærum nemendahópi í vetur og óskum öllum góðs gengis í náminu.