Erlent samstarf

Menntaskólinn við Sund (MS) tekur þátt í fjölbreyttu erlendu samstarfi og samstarfsverkefnum. Markmiðin með erlendu samstarfi eru að efla nám nemenda og starfsþróun starfsfólks og víkka sjóndeildarhring allra bæði nemenda og starfsfólks. Stór hópur nemenda og starfsmanna skólans tekur þátt í erlendu samstarfi á ári hverju en einnig tekur skólinn á móti fjölda nemenda og skólastarfsfólks erlendis frá árlega. 

Ylfa Björg Jóhannesdóttir kennari (ylfaj@msund.is) er verkefnisstjóri um erlent samstarf og starfar hún í samstarfi við rektor og konrektor MS.

Stefna Menntaskólans við Sund í erlendu samstarfi

Stefna Menntaskólans við Sund er að taka þátt í fjölbreyttu erlendu samstarfi og samstarfsverkefnum. Markmiðin með erlendu samstarfi eru að efla nám nemenda og starfsþróun starfsfólks og víkka sjóndeildarhring allra bæði nemenda og starfsfólks. Tilgangurinn gagnvart nemendum er að auka námshæfni, námskraft og tungumálahæfni þeirra. Tilgangurinn gagnvart starfsfólki er að auka hæfni starfsfólks til að vinna að breytingastarfi í skólanum og ná markmiðum skólans. Einnig er tilgangurinn að auka þverfaglegt samstarf og auka starfsánægju.

Áhersla er lögð á:

  • Þátttöku í Erasmus+ verkefnum með aðild að Erasmus samningi frá 2021-2027.
  • Þátttöku í norrænu samstarfi í gegnum Nordplus verkefni.
  • Þátttöku í rafrænum ráðstefnum um skólastarf og eTwinning rafrænu skólasamstarfi.
  • Að styðja við kennara sem vilja bjóða nemendum í erlendum tungumálum upp á námsferðir til landa þar sem tungumálið er talað.
  • Móttöku erlendra sérfræðinga sem miðla þekkingu sinni og reynslu til starfsfólks og nemenda.
  • Móttöku erlendra gesta sem vilja kynna sér skólastarfið í MS.
  • Skýrar og lýðræðislegar verklagsreglur um umsóknarferli erlendra verkefna.
  • Að gildi MS, virðing, jafnrétti, ábyrgð og heiðarleiki séu höfð í fyrirrúmi í erlendu samstarfi.

Markmið MS með aðildarsamningi Erasmus+ 2021-2027 er að efla hæfni starfsfólks MS til að:

  1. Innleiða fjölbreyttar námsmatsaðferðir með áherslu á leiðsagnarnám og mat á hæfni nemenda.
  2. Skapa menningu sem stuðlar að því að byggja upp námskraft nemenda með áherslu á virkni og sjálfræði nemenda á námi sínu.
  3. Innleiða verkefnabundið nám með áherslu á samvinnunám og skapandi nám nemenda.
  4. Nýta upplýsingatækni með áherslu á nýtingu fjölbreyttra forrita í fjarkennslu.
  5. Búa til rafrænt námsefni og rafræn verkefni fyrir nemendur.
  6. Fá nemendur til að aðlaga lífsstíl sinn grænum eða sjálfbærum lífsstíl og efla umhverfisvernd í MS.
  7. Finna og innleiða leiðir til að halda brotthvarfi nemenda áfram lágu.
  8. Temja sér virka hlustun og finna leiðir til að stuðla að jákvæðum samskiptum nemenda innan og utan kennslustofunnar.
  9. Vinna starfendarannsóknir og auka möguleika starfsfólks á að skapa tengsl í Evrópu við starfsfólk skóla sem stunda starfendarannsóknir.
  10. Finna leiðir til að byggja upp jákvæðan skólabrag t.d. búa til nýtt umsjónarkerfi og bæta móttöku nýnema í nýju þriggja anna kerfi.

Hér má sjá yfirlit yfir erlend samstarfsverkefni hvers skólaárs.