Reglur um skólasókn

1. Nemendur eiga að mæta stundvíslega í allar kennslustundir.

Fjarvist úr einni kennslustund jafngildir einu fjarvistastigi. Nemendur byrja með 100% mætingu í upphafi hverrar annar. Uppgjör skólasóknar fer fram reglulega. Mæting undir 85% telst agabrot.

Ef ólögráða nemandi uppfyllir ekki ákvæði um skólasókn eru forráðamenn upplýstir um stöðuna og mögulegar afleiðingar.

2. Raunmæting er hluti af námsmati í öllum náms­greinum.

Raunmæting er reiknuð án tillits til vottorða og leyfa. Við útreikning á raunmætingu er tekið tillit til námsferða á vegum skólans. Raunmæting gildir að lágmarki 5 prósent af lokaeinkunn í hverri grein.

3. Mæting verður skráð fyrir hverja 40 mínútna kennslustund.

Mætingarhlutfall nemenda verður birt á einkunnablöðum sem heildarmæting í skólann á önninni.

Manntal er tekið við upphaf kennslu og skráning er eftirfarandi:

  • M: Nemandi mættur þegar manntal er tekið
  • F: Fjarvist, nemandi er ekki mættur þegar manntal er tekið
  • O: Nemandi sinnir námi/ skólastarfi utan kennslustofu
  • X: Tími er ekki haldinn
  • U: Annað, nemandi er fjarverandi vegna sérstakra aðstæðna í samráði við skólann

Undanþágur frá skólasóknarreglum

  • Skólinn leitast við að koma til móts við langveika nemendur, liggi fyrir formleg vottun frá viðkomandi sérfræðingi.
  • Afreksfólk getur sótt um sérstakt tímabundið frávik frá mætingarreglum. Vottun frá viðkomandi fagaðila þarf að liggja fyrir í samræmi við grein 16.2 í Aðalnámskrá framhaldsskóla.

Umbun fyrir afburðamætingu

Nemendur með 98-100% raunmætingu fá 1 einingu á önn fyrir mætingu. Nemandi með afburðarmætingu í gegnum skólagönguna getur þá fengið 5 einingar metnar fyrir mætingu í frjálsu vali. (Ný regla sem gildir frá og með vetrarönn 2022-2023).

Eldri regla gildir áfram fyrir nemendur sem útskrifast á vorönn 2023:

Nemendur sem mæta frábærlega vel í skólann, þannig að raunmæting fari ekki undir 98% og viðkomandi nemendur hafa hvorki fengið frádregnar (á skólaárinu) fleiri en 15 kennslustundir vegna veikinda og/eða leyfa á skólaári, fá innritunargjöld þess skólaárs endurgreidd. (Vegna covid-19 á þetta ákvæði ekki við skólaárin 2019-2020, 2020-2021 og 2021-2022).

Síðast uppfært: 10.01.2023