Reglur um mat á námi utan skólans og á félagsstörfum nemenda

Mat á tungumálafærni

Nemandi sem hefur sérstaka færni í öðru tungumáli en íslensku getur óskað eftir stöðumati til eininga. Um getur verið að ræða annað móðurmál viðkomandi eða aðra sérstaka hæfni í tungumáli, meðal annars vegna búsetu erlendis. Skólinn byggir á viðmiðum evrópsku tungumálamöppunnar og kallar til fagaðila sem framkvæma munnlegt og skriflegt mat á nemendum. Hæfni er metin á bilinu A1-C2 og er hæfni B2 og yfir talin réttlæta fullt mat til eininga þ.e. 20 einingar, 15 á 1. þrepi og 5 á 2. þrepi.

  • Nemendur greiða sérstaklega fyrir stöðumat í tungumálum. Greitt er eitt gjald, 15.000 ISK, skólinn sér um ferlið að öðru leyti og er niðurstaða matsins skráð í Innu.
  • Hafi nemandi eingöngu munnlega færni í tungumáli getur viðkomandi engu síður óskað eftir stöðumati. Slík færni er þó að hámarki metin til 5 eininga og skráð í námsferil í stað norðurlandamáls.

Mat á afreksíþróttum

Skólinn metur til eininga íþróttaiðkun afreksfólks, að hámarki til 5 eininga. Skilyrði fyrir því að mat fari fram eru eftirfarandi:

  • Viðkomandi keppnisgrein sé viðurkennd sem fullgild grein innan ÍSÍ.
  • Umsækjandi sé í landsliði og/eða meistaraflokki eða álíka.
  • Umsækjandi fylgi æfinga- og keppnisplani meistaraflokks eða álíka afrekshóps.
  • Viðkomandi meistaraflokkur keppi í efstu eða næstefstu deild eða sambærilegu.
  • Umsókn sé með öllum nauðsynlegum upplýsingum og fylgigögnum.

Mat á tónlistarnámi

Skólinn metur til eininga tónlistarnám sem lokið er hjá viðurkenndum tónlistarskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • Nemandi sem lýkur miðprófi í tónlist og tónfræðigreinum getur fengið það metið til allt að 10 eininga á öðru hæfniþrepi.
  • Nemandi sem lýkur fullgildu framhaldsprófi á meðan hann stundar nám í MS getur fengið það metið til 10 eininga á 3. hæfniþrepi.

Mat á flugnámi

Skólinn metur til eininga nám til flugmannsréttinda sem lokið er hjá viðurkenndum flugskóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám í MS. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • Nemandi sem lýkur náminu og hefur fengið flugmannsréttindi fær það metið til 15 eininga.
  • Skráðar eru 5 einingar sem raungrein, 5 einingar sem félagsgrein og 5 einingar sem almennt nám í frjálsu vali.

Mat á knapamerkjum

Skólinn metur til eininga knapamerki sem lokið er hjá viðurkenndum skóla á þeim tíma sem viðkomandi nemandi stundar nám við Menntaskólann við Sund. Eftirfarandi viðmið gilda:

  • Nemandi sem lýkur knapamerki 3 fær það metið til 5 eininga.
  • Nemandi sem lokið hefur knapamerki 5 getur fengið 10 einingar metnar að auki.
  • Nemandi sem hefur lokið knapamerki 5 getur því óskað eftir að fá nám sitt metið sem aðra sérhæfingu

Reglur um mat á félagsstörfum nemenda

Skólinn metur framlag nemenda til skólabrags og félagslífs mikils. Þeir nemendur sem leggja sérstaklega hart að sér, samnemendum sínum og skólanum til góðs, geta sótt um að fá störf sín metin til eininga á árs grundvelli í samræmi við eftirfarandi viðmið:

  • Þátttakendur í sýningum Thalíu geta sótt um 5 einingar í frjálsu vali. Gerð er krafa um að fyrir liggi formleg vottun leikstjóra og staðfesting frá formanni Thalíu.
  • Keppendur í MORFÍS og Gettu betur geta sótt um 5 einingar í frjálsu vali. Gerð er krafa um að fyrir liggi formleg vottun þjálfara og staðfesting frá formanni málfundafélags SMS.
  • Kjörnir formenn nefnda og ráða SMS geta óskað eftir því að fá 5 einingar í frjálsu vali fyrir sín störf. Gerð er krafa um að fyrir liggi jákvæð umsögn miðhóps og staðfesting frá félagsmálastjóra.
  • Meðlimir miðhóps geta óskað eftir því að fá 5 einingar í frjálsu vali fyrir sín störf. Gerð er krafa um að fyrir liggi jákvæð umsögn félagsmálastjóra og staðfesting frá kennslustjóra.

Síðast uppfært: 03.02.2023