Stofnanasamningar MS
Menntaskólinn við Sund gerir stofnanasamninga við sitt starfsfólk eins og reglur gera ráð fyrir. Starfsmenn skólans eru í nokkrum stéttarfélögum. Flestir eru innan veggja Kennarasambands Íslands en starfsmenn á þjónustusviði eru ýmist í KÍ, SFR eða einhverju aðildarfélaga BHM. Í stofnanasamningum er gengið frá röðun starfa til launa og því hvaða persónubundnu þættir hafa þar áhrif. Einnig er í stofnanasamningum MS ákvæði um sérgreiðslur fyrir verkefni og faglega stjórnun. Skólinn hefur í gegnum tíðina að auki í stofnanasamningum sínum gengið frá samkomulagi um þróunarstarf og styrki til þess, árangurstengingu launa og fleiri atriði sem aðilar hafa orðið ásáttir um.
Stofnanasamningur MS og félagsmanna í KÍ
Samstarfsnefndina skipa þrír aðilar frá hvorum aðila. Félagar í KÍ velja sér sína fulltrúa í nefndina en af hálfu skólans situr rektor auk annars stjórnanda í nefndinni en þriðji fulltrúi skólans hefur um langt árabil verið að ósk skólans utanaðkomandi aðili með sérþekkingu bæði á skólastarfi sem kjarasamningum. Nefndin hefur fundað reglulega frá árinu 2001 og hefur haustið 2017 haldið yfir 150 formlega og bókaða fundi.
Stofnanasamningur MS og félagsmanna í SFR
Skólinn hefur lagt áherslu á að gengið verði formlega frá stofnanasamningi við SFR vegna starfsmanna MS á þjónustusviðinu sem eru félagsmenn í SFR. Ekki hefur enn verið gengið frá heildarútgáfu af stofnanasamningi þessara aðila en samkomulag hefur verið gert við SFR um röðunarþáttinn.
Stofnanasamningar MS og félaga í BHM
Starfsmenn MS sem eru innan veggja BHM eru fáir. Hér er um að ræða starfsmenn á bókasafni sem eru í félagi bókasafns- og upplýsingarfræðinga, starfsmann á skrifstofu sem er innan Fræðagarðs og Fjármálastjóra sem er í félagi viðskipta- og hagfræðinga í BHM. Samstarfsnefndir þessara aðila eru annars vegar skipaðar þremur fulltrúum skólans og hins vegar fulltrúum viðkomandi stéttarfélags. Ekki eru allir fundir fullskipaðir.