Fróðleikur dagsins: Brautskráðir stúdentar frá MS fyrstu 11 árin og ýmislegt annað frá fyrstu árum MS

Fyrstu stúdentarnir  voru brautskráðir frá MT vorið 1973. Árið 1983 voru brautskráðir stúdentar frá MT og MS orðnir 1842. Þar af voru piltar 987 og stúlkur 955. Það voru því stórir árgangar sem brautskráðust frá skólanum fyrsta áratuginn og var bekkurinn oft þéttsetinn í gamla Miðbæjarskólanum. Stofurnar þar voru litlar og það var ekki mikið pláss fyrir nemendur annars staðar í húsinu. Íþróttaaðstaða var á annarri hæði í norðurálmunni og sú aðstaða var svo lítil að þegar hoppað var yfir hestinn (sem gert var í þá daga) kom fyrir að viðkomandi lenti eftir stökkið í stiganum og rúllaði niður á næstu hæð. Við Miðbæjarskólann voru um 20 bílastæði í portinu og húsvörðurinn var sá eini sem var með sérmerkt stæði sem hann varði síðan með kjafti og klóm ef einhver leyfði sér að leggja þar.