Brautskráning frá MS 26.11.2022

Nemendurnir%202

Í dag brautskráðust fimm nemendur frá Menntaskólanum við Sund en skólinn brautskráir nýstúdenta við lok hverrar annar í þriggja anna kerfi.

Veðrið var dumbungslegt framan af en um það leyti sem nýstúdentar settu upp húfurnar dró ský frá sólu og gengu þeir út í fallegt og bjart haustveður við lok athafnar. Má hugsanlega segja að veðraskiptin við brautskráninguna hafi kallast á við ögranir sem nemendur fengu í fangið á skólagöngunni á tímum ítrekaðra samkomubanna sem svo létti þegar líða tók undir lok námstímans.

Nýstúdentarnir brautskráðust af þremur námslínum; líffræði- og efnafræðilínu , hagfræði- og stærðfræðilínu og félagsfræði- og sögulínu. Rebekka Líf Svanþórsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta og varð henni tíðrætt um þau sterku vinatengsl sem myndast í gegnum menntaskólagönguna. Þrátt fyrir að samkomutakmarkanir hafi á tíðum sett stífar skorður þá náðu nemendur engu að síður að tengjast og bindast sterkum vináttuböndum.

Við athöfnina flutti Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor skólans ávarp þar sem hún hrósaði brautskráningarnemendum fyrir þá seiglu sem þeir hafa sýnt í námi sem tók á sig óhefðbundnar myndir stóran hluta námstímans. Í ávarpi sínu lagði rektor áherslu á mikilvægi þess að upplifa öryggi í lífinu til að geta vaxið, dafnað og nýtt hæfileika sína til hins ýtrasta. Öryggi fylgir búsetu á Íslandi, slíkt er ekki sjálfgefið og fyrir það ber að þakka. Gaf rektor nemendum það heilræði að sýna samferðafólki sínu sama viðmót og þeir sjálfir vilji fá. Ekki sé alltaf hægt að sjá utan á samferðafólki hvað innra býr og mikilvægt sé að koma vel fram við náungann. Notaði rektor epli með táknrænum hætti til að leggja áherslu á orð sín. Epli sem verður fyrir hnjaski getur litið út fyrir að vera heilt að utan en það segir ekki endilega til um hvort eplið sé heilt að innan.

Rektor þakkaði að lokum samstarfsfólki sínu gríðarlega fagmennsku, seiglu og útsjónarsemi og bauð nemendum að ganga glaðir út í daginn, hans bæri að njóta því hver dagur kæmi ekki nema einu sinni.