163 nemendur brautskráðir

Brautskráning frá Menntaskólanum við Sund fór fram í Háskólabíó í dag og er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við nýstúdenta skólans. Alls brautskráðust 163 nemendur af fjórum námslínum; líffræði- og efnafræðilínu , eðlisfræði- og stærðfræðilínu, hagfræði- og stærðfræðilínu og félagsfræði- og sögulínu.

Við athöfnina voru nemendum veittar ýmsar viðurkenningar fyrir námsárangur og félagsstörf enda mikilvægt að framhaldsskólaárin einkennist af báðum þessum þáttum.

Með hæstu einkunn á stúdentsprófi og dúx skólans að þessu sinni var Ástrós Magna Vilmundardóttir sem brautskráðist af félagsfræðabraut, félagsfræði- og sögulínu með meðaleinkunnina 9,69. Með næst hæstu einkunn og því semidúx skólans var Hildur Lilja Ágústsdóttir sem brautskráðist af náttúrufræðibraut, líffræði- og efnafræðilínu með 9,39 í meðaleinkunn.

Við athöfnina flutti Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor skólans ávarp þar sem hún hrósaði brautskráningarnemendum fyrir þá seiglu sem þeir hafa sýnt í námi sem hefur tekið á sig óhefðbundnar myndir stóran hluta tímans, ýmist með fjarnámi eða grímuskyldu og fjarlægðarmörkum. Fór rektor yfir viðburði í skólalífinu í vetur en nemendur hafa tekið þátt í hinum ýmsu keppnum á vegum skólans og eftir að samkomutakmörkunum sleppti verið duglegir að rífa félagslífið í gang á nýjan leik. Í ávarpi sínu ræddi rektor einnig um kraft vonarinnar og benti brautskráningarnemendum á að við getum lifað í þrjár vikur án matar, þrjá daga án þess að drekka vökva, þrjár mínútur án þess að draga andann en án vonarinnar getum við ekki lifað í þrjár sekúndur. Við þurfum á að halda von um gott líf og von um betri heim og hvatti hún nemendur til að leita hamingjunnar í lífinu sem ekki hvað síst felist í litlu hlutunum.

Magnús Már Gunnlaugsson flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta og hvatti hann samnemendur sína til að vera óhræddir við að feta eigin slóðir í lífinu.

Brautskráningin í dag var sú 49. í sögu Menntaskólans við Sund sem alls hefur nú brautskráð 7.872 stúdenta.