Sóttvarnareglur í Menntaskólanum við Sund
Leiðbeiningar til almennings í tilefni af afléttingum takmarkana vegna COVID-19.
Þeim áfanga er nú náð í baráttunni við COVID-19 að öllum takmörkunum innanlands og á landamærum var aflétt á miðnætti aðfaranótt 25.2.2022. Þó að öllum aðgerðum hafi verið aflétt þá er COVID-19 faraldurinn hér enn í mikilli útbreiðslu en alvarlegar afleiðingar hans fátíðar. Það er því áfram mikilvægt að allir hugi vel að ýmsum atriðum sem lúta að greiningu, meðferð og sýkingavörnum til að lágmarka eins og kostur er stjórnlausa útbreiðslu faraldursins og alvarlegar afleiðingar hans.
Á næstu dögum verða uppfærðar ýmsar leiðbeiningar er varða COVID-19 á covid.is og landlaeknir.is og er almenningur beðinn um að kynna sér þær eins og kostur er. Í þessum pistli verður fjallað um nokkur atriði sem mikilvægt er að koma á framfæri við almenning á þessum tímapunkti.
Einstaklingsbundnar sýkingavarnir
Þó að öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi nú verið aflétt, þá er mikilvægt að allir viðhafi sem mest einstaklingsbundnar sýkingavarnir. Í einstaklingsbundnum sýkingavörnum felst að viðhalda sem mest eins metra fjarlægð á milli ótengdra aðila, nota andlitsgrímur í fjölmenni og þar sem ekki er hægt að viðhafa eins metra fjarlægð, huga vel að handhreinsun og nota handspritt, og huga vel að loftræstingu.
Þau sem greinast með COVID-19 eru beðin að upplýsa þá einstaklinga sem þau voru í nánd við í 1-2 daga áður en einkenni þeirra hófust eða greining var gerð þar sem aðrir gætu hugsanlega hafa smitast. Þessir einstaklingar teljast útsettir (sjá um sóttkví og smitgát fyrir neðan).
Sóttkví og smitgát
Sóttkví var aflögð með reglugerðarbreytingu þann 12. febrúar sl. og þess í stað voru útsettir einstaklingar hvattir til að viðhafa smitgát í 5 daga. Áfram eru útsettir einstaklingar hvattir til að fara eftir leiðbeiningum um smitgát og fara eftir tilmælum um einangrun eða fara í hraðgreiningarpróf ef þeir fá einkenni á fyrstu viku sem bent geta til COVID-19.
Leiðbeiningar til þeirra sem greinast með COVID-19
Þeir sem að greinast með COVID-19 eru hvattir til að fara eftir leiðbeiningum um einangrun sem koma fram hér að ofan. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, í samvinnu við sóttvarnalækni, mun á næstunni gefa út frekari leiðbeiningar til þeirra sem eru veikir en þar má finna almenn ráð til þeirra sem dvelja heima og einnig leiðbeiningar um hvenær og hvernig nálgast má heilbrigðiskerfið vegna veikindanna.
- Grímur eru aðgengilegar við innganga skólans fyrir þá sem það vilja
Aðrar sóttvarnir
- Munum að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, halda fjarlægð, þvo og/eða spritta hendur.
- Hver og einn ber ábyrgð á því að sótthreinsa sína starfsstöð í upphafi kennslustunda.
- Gangar skólans eru ferðarými. Forðumst hópamyndanir.
- Mælt er að með að nota rakningarapp heilbrigðisyfirvalda.
Verum heima ef við finnum fyrir einkennum
Þeir sem finna fyrir einkennum COVID-19 eiga að vera heima og tilkynna veikindi, nemendum er bent á að vera í góðu netsambandi við kennara sína. Sjá leiðbeiningar hér.
Gerum þetta saman!
Forsendan fyrir því að við getum haldið úti skólastarfi er að virða reglurnar og fara eftir þeim.
----------------------------------------
Sóttvarnareglur skólans byggja á reglugerð á takmörkum á samkomum vegna farsóttar (gildir frá og með 12. febrúar)